Körfubolti

Í fyrsta sinn sem konur stýra fé­lagi sem aðal­þjálfari og fram­kvæmda­stjóri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lindsey Harding hefur starfað fyrir Sacramento Kings í NBA-deildinni en tekur nú við Stockton Kings.
Lindsey Harding hefur starfað fyrir Sacramento Kings í NBA-deildinni en tekur nú við Stockton Kings. achlan Cunningham/Getty Images

Stockton Kings braut blað í sögu félagsins sem og G-deildarinnar í körfubolta þegar liðið réð Lindsey Harding sem aðalþjálfara og Anjali Ranadivé sem framkvæmdastjóra.

Stockton Kings er eins og nafnið gefur til kynna tengt Sacramento Kings sem spilar í NBA-deildinni. G-deildin er svo þróunardeild NBA-deildarinnar í körfubolta og þar spila leikmenn sem til að mynda voru ekki valdir í nýliðavali NBA-deildarinnar.

Stockton Kings hefur nú skráð sig á spjöld sögunnar með því að ráða þær Harding og Ranadivé. Er þetta í fyrsta sinn í sögu deildarinnar sem konur eru í starfi þjálfara og framkvæmdastjóra á sama tíma.

Harding er 39 ára gömul og spilaði körfubolta að atvinnu frá 2007 til 2017. Spilaði hún í WNBA-deildinni í Bandaríkjunum ásamt því að spila í Litáen, Tyrklandi og Rússlandi. Árið 2021 var hún svo óvænt ráðin landsliðsþjálfari Suður-Súdan. Hin þrítuga Ranadivé er dóttir Vivek Ranadivé, eiganda Sacramento Kings. Hún var aðstoðarframkvæmdastjóri félagsins á síðustu leiktíð.

Hvað G-deildina varðar þá mun hún bjóða upp á nýjung á næstu leiktíð. Fá ungir alþjóðlegir leikmenn tækifæri til að spila í deildinni með það að leiðarljósi að komast í nýliðaval NBA. 

Einn Íslendingur ætlar að láta á það reyna. Valið fer fram 27. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×