Enski boltinn

Gundogan búinn að á­kveða sig | New­cast­le að næla í Tonali

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gundogan og Tonali virðast báðir ætla að leita á nýajr slóðir í sumar.
Gundogan og Tonali virðast báðir ætla að leita á nýajr slóðir í sumar. Vísir/Getty

Ilkay Gundogan mun ganga til liðs við Barcelona þegar samningur hans rennur út í sumar. Þá hefur Newcastle lagt fram tilboð í miðjumanninn Sandro Tonali hjá AC Milan.

Framtíð Ilkay Gundogan hefur verið í óvissu síðustu vikur og mánuði en samningur hans hjá Englands- og Evrópumeisturum Manchester City rennur út í sumar. Gundogan hefur ítrekað verið orðaður við Spánarmeistara Barcelona en Pep Guardiola hefur lýst því yfir að hann vilji fyrir alla muni halda Þjóðverjanum í Manchesterborg.

Nú greinir íþróttafréttmaðurinn Fabrizio Romano frá því að Gundogan sé búinn að skrifa undir við Barcelona og hefur skellt sínum víðsfræga frasa „Here we go!“ við færslu sína á Twitter en Romano þykir afar trúverðugur í félagaskiptabransanum.

Samkvæmt Romano hefur Gundogan skrifað undir tveggja ára samning við Barcelona en hann var fyrirliði Manchester City á síðasta tímabili og er hvalreki fyrir Xavi og lærisveina hans.

Þá greina enskir fjölmiðlar frá því að Newcastle hafi lagt fram 55 milljón punda tilboð í Sandro Tonali miðjumann AC Milan. Tonali er tuttugu og þriggja ára gamall miðjumaður sem var í lykilhlutverki hjá AC Milan á nýliðnu tímabili.

Tonali hefur leikið fjórtán landsleiki fyrir ítalska landsliðið og hefur komið við sögu hjá ítalska liðinu í undankeppni Evrópumótsins nú í vor.

Tonali er fyrsta val knattspyrnustjórans Eddie Howe til að styrkja miðsvæðið hjá Newcastle en viðræður félagsins við ítalska stórveldið hafa staðið yfir síðasta sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×