Cameron tjáði sig í fyrsta skipti um kafbátinn Titan og örlög hans í viðtali við ABC í kvöld.
Sjálfur hefur hann mikla þekkingu á neðansjávarköfun, hefur kafað niður að flaki Titanic og var fyrsti maðurinn til að kafa niður á botn Maríanadjúpálsins þar sem er mesta hafdýpi á jörðinni, rúmir ellefu kílómetrar.
Hafið og neðansjávarköfun hafa sömuleiðis verið fyrirferðarmikil í kvikmyndum hans, þar má nefna Titanic, Avatar 2: The Way of Water, The Abyss og Aliens of the Deep.
Titanic director James Cameron on the catastrophic implosion of Titan submersible: I m struck by the similarity of the Titanic disaster itself, where the captain was repeatedly warned about ice ahead of his ship and yet he steamed at full speed into an ice field." pic.twitter.com/vO8JkCXS5f
— ABC News (@ABC) June 22, 2023
Aðvaranir virtar að vettugi í báðum tilvikum
Í viðtalinu sagði hann að fólk innan samfélags neðansjávarkönnunar hafi verið mjög áhyggjufullt vegna leiðangurs Titan.
Fjöldi þekktra neðanjsávarverkfræðinga hafi meira að segja skrifað bréf til OceanGate til að vara við því að kafbáturinn væri of tilraunakenndur. Kafbáturinn hafi ekki verið vottaður af viðurkenndum aðilum og ferðalagið hafi verið glæfraför.
Hann segir að það hafi slegið sig hve lík örlög kafbátsins og Titanic voru. En í tilfelli farþegaskipsins var skipstjórinn ítrekað varaður við ísjökunum sem voru fram undan en sigldi ótrauður áfram inn í hafísinn og vota gröfina.
„Fyrir okkur er þetta mjög sambærilegur harmleikur þar sem aðvaranir voru virtar að vettugi. Að það eigi sér stað á nákvæmlega sama stað, með alla þá köfun sem á sér stað um allan heim, mér finnst það undravert. Það er í rauninni mjög súrrealískt,“ segir Cameron.