Innlent

Lægsta til­boði hafnað 44 sinnum á síðustu fimm árum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í 27 skipti af 44 var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun en í sumum tilvikum uppfylltu lægstbjóðendur ekki hæfiskröfur.
Í 27 skipti af 44 var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun en í sumum tilvikum uppfylltu lægstbjóðendur ekki hæfiskröfur. Vísir/Vilhelm

Vegagerðin hafnaði lægsta tilboði í útboði 44 sinnum á síðustu fimm árum. Á sama tíma voru 489 samningar undirritaðir.

Þetta kemur fram í svörum innviðaráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um útboð Vegagerðarinnar.

Í 27 skipti af 44 var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun en í sumum tilvikum uppfylltu lægstbjóðendur ekki hæfiskröfur. Þá sögðu verktakar sig frá verkinu í nokkrum tilvikum.

Hér fyrir neðan má sjá svör ráðherra, sundurliðuð eftir ári:

  • Árið 2018 hafnaði Vegagerðin lægsta boði í útboði níu sinnum. Í fimm tilfellum var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun verkanna. Í tveimur tilfellum sagði lægstbjóðandi sig frá verkinu vegna annarra verkefna, í einu tilfelli sagði lægstbjóðandi sig frá verkinu vegna reiknivillu í tilboðsgerð og í einu tilfelli var tilboð lægstbjóðanda ógilt vegna ófullnægjandi gagna. Alls voru undirritaðir 103 samningar á árinu.
  • Árið 2019 hafnaði Vegagerðin lægsta boði í útboði ellefu sinnum. Í fimm tilfellum var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun. Í fimm tilfellum uppfyllti lægstbjóðandi ekki hæfiskröfur (t.d. um verkreynslu) og í einu tilfelli var öllum tilboðum hafnað vegna fjárheimilda, útboði breytt og það boðið út aftur. Alls voru undirritaðir 123 samningar á árinu.
  • Árið 2020 hafnaði Vegagerðin lægsta boði í útboði fjórum sinnum. Í tveimur tilfellum var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun. Í einu tilfelli uppfyllti lægstbjóðandi ekki hæfiskröfur um verkreynslu og í öðru tilfelli var útboðið byggt á grundvelli matslíkans þar sem horft var á verð sem og hæfni. Alls voru undirritaðir 97 samningar á árinu.
  • Árið 2021 hafnaði Vegagerðin lægsta boði í útboði ellefu sinnum. Í átta tilfellum var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun. Í tveimur tilfellum sagði verktaki sig frá verkinu og í einu tilfelli uppfyllti lægstbjóðandi ekki hæfiskröfur þar sem eigið fé var neikvætt. Alls voru undirritaðir 102 samningar á árinu.
  • Árið 2022 hafnaði Vegagerðin lægsta boði í útboði níu sinnum. Í sjö tilfellum var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru verulega yfir kostnaðaráætlun. Í tveimur tilfellum var útboðið byggt á grundvelli matslíkans þar sem horft var á verð sem og hæfni. Alls voru undirritaðir 64 samningar á árinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×