Fótbolti

Newcastle gerði Tonali að dýrasta Ítala sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sandro Tonali er genginn til liðs við Newcastle.
Sandro Tonali er genginn til liðs við Newcastle. Flaviu Buboi/NurPhoto via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Newcastle hefur gengið frá kaupum á ítalska knattspyrnumanninum Sandro Tonali frá AC Milan.

Newcastle er sagt greiða allt að 70 milljónir evra fyrir leikmanninn sem samsvarar rétt tæplega 10,5 milljörðum íslenskra króna. Ef rétt reynist er Tonali dýrasti ítalski knattspyrnumaður sögunnar.

Tonali skrifar undir fimm ára samning við Newcastle með möguleika á árs framlengingu, en leikmaðurinn hefur verið í herbúðum AC Milan fsíðastliðinn þrjú ár ef með er talið eitt lánstímabil 2020-2021. Með Mílanóliðinu lék miðjumaðurinn samtals 120 deildarleiki og skoraði í þeim sjö mörk.

Hann var hluti af liðinu er AC Milan tryggði sér ítalska meistaratitilinn tímabilið 2021-2022 og lék stórt hlutverk fyrir félagið er liðið komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar í vor.

Hinn 23 ára gamli Tonali lék sinn fyrsta leik fyrir A-landslið Ítalíu árið 2019 og síðan þá eru leikirnir fyrir hönd þjóðar sinnar orðnir fjórtán talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×