Enski boltinn

Eigandi Millwall lést í bílslysi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 John Berylson missti stjórn á bílnum sínum þegar hann var að keyra suður af Boston í Bandaríkjunum.
 John Berylson missti stjórn á bílnum sínum þegar hann var að keyra suður af Boston í Bandaríkjunum. Getty/Kieran Galvin

John Berylson, eigandi enska fótboltafélagsins Millwall, lést á þriðjudaginn.

Berylson lést eftir að hafa lent í bílslysi í Massachusetts fylki í Bandaríkjunum. Slysið varð í Falmouth sem eru um 130 kílómetra suður af Boston.

Berylson var að keyra Range Rover og var á suðurleið þegar hann missti stjórn á bílnum í beygju, fór út af veginum þar sem bíllinn valt niður í gil og endaði á tré.

Berylson var einn í bílnum en björgunaraðilar þurftu að nota klippur til að komast að honum. Því miður tókst ekki að bjarga lífi hans og hann var úrskurður látinn á staðnum.

Berylson kom inn í félagið árið 2006. Hann var bandarískur viðskiptamaður. Berylson fór því fyrst að hafa afskipti af Millwall fyrir sautján árum en árið eftir fór hann yfir fjárfestingahópi sem tók yfir félagið sem var þá í þriðju efstu deild.

Berylson setti í kringum hundrað milljónir punda inn í félagið og hans tíma fór það upp um tvær deildir.

Millwall, sem er frá London, hefur eytt nær öllum 138 árum félagsins utan efstu deildar en liðið spilaði þó tvö tímabil meðal þeirra bestu frá 1988 til 1990. Félagið komst síðan í bikarúrslitaleikinn 2004 þar sem liðið tapaði 3-0 fyrir Manchester United.

Frægasti sonur félagsins er örugglega Teddy Sheringham sem átti síðan eftir að spila fyrir Manchester United, Tottenham og enska landsliðið. Harry Kane var líka lánaður til Millwall á sínum yngri árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×