„Þetta hefur verið skemmtilegra en ég átti von á. Ég var búinn að vera á fótbolti.net í nítján ár og hélt ég myndi sakna þess meira. Það hefur ekki verið söknuður í einn dag því ég er í fótbolta alla daga,“ segir hinn viðkunnalegi Magnús Már léttur.
Ákveðin hugmyndafræði í gangi
Liði Aftureldingar var aðeins spáð sjötta sætinu í deildinni en þegar níu umferðir eru búnar af mótinu er Afturelding á toppnum og hefur ekki enn tapað leik.
Afturelding spilar skemmtilegan bolta eins og sést líka á því að liðið hefur skorað mest allra liða í deildinni.
„Lykillinn að þessum árangri núna er mikil vinna undanfarin ár. Það er ákveðin hugmyndafræði í gangi hérna og strákarnir hafa lagt á sig mikla vinnu. Við höfum líka fengið inn leikmenn sem hafa fallið inn í hugmyndafræðina. Svo er mikil stemning í bæjarfélaginu og þetta er allt að smella,“ segir þjálfarinn sem er þó með báða fætur á jörðinni.
„Mótið er varla hálfnað og það man enginn hvar var á toppnum í júlí. Þetta snýst um að vera á toppnum í september og við viljum meira.“
Vissi að við stæðum öðrum liðum snúning
Þessi flotta byrjun Mosfellinga hefur komið mörgum á óvart en ekki Magnúsi.
„Í draumaheimi já. Ég vissi að við værum að púsla saman liði sem gæti gert góða hluti í sumar. Lið sem getur unnið öll lið í þessari deild. Ég vissi að við værum með lið sem gæti staðið öllum liðum snúning og það hefur komið á daginn,“ segir Magnús Már en ef liðið kemst upp. Er bæði liðið og félagið tilbúið í svo stórt skref?
Leikmenn sem geta tekið skrefið í efstu deild
„Leikmennirnir eru flestir á mjög góðum aldrei og eru að bæta sig sem fótboltamenn. Ég treysti þeim til að taka þetta skref. Auðvitað yrðum við samt að styrkja hópinn eitthvað. Það er gott utanumhald í kringum liðið. Það sem vantar er samt betri aðstaða fyrir áhorfendur. Við erum með áhorfendasvæði fyrir 300 manns en á síðasta leik voru um 1.000 manns á vellinum. Því fyrr sem verður byrjað að grafa og gera eitthvað hérna því betra.“
Sjá má viðtalið við Magnús Má í heild sinni hér að neðan.