Íslenski boltinn

Segir mikla viðurkenningu að vera kallaða í íslenska landsliðið

Jón Már Ferro skrifar
FH liðið hefur komið á óvart í sumar. Það kemur þó ekki á óvart að Arna Eiríksdóttir og Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir.
FH liðið hefur komið á óvart í sumar. Það kemur þó ekki á óvart að Arna Eiríksdóttir og Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir. vísir/Hulda margrét

„Við eigum alveg skilið að vera hérna,“ segir Sunneva Hrönn, leikmaður FH. Arna Eiríksdóttir og Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir voru kallaðar inn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Finnlandi og Austuríki í tveimur vináttulandsleikjum á næstu dögum.

Arna og Sunneva hafa staðið vaktina í vörn nýliða FH sem hafa komið mikið á óvart í sumar og eru í fjórða sæti Bestu deildarinnar. Landsliðsvalið kom FH-ingunum ekki á óvart.

„Nei í rauninni ekki. Við erum búnar að standa okkur rosalega vel með FH og búnar að sýna það að við eigum alveg skilið að vera hérna,“ segir Sunneva.

„Við erum mjög þakklátar fyrir tækifærið. Þetta er fyrst og fremst ótrúlega mikil viðurkenning. Örugglega eitthvað sem flestir leikmenn stefna að. Þetta er ótrúlega gaman,“ segir Arna.

Arna segir að samheldni sé stærsta ástæðan fyrir góðu gengi FH í sumar. FH-ingar eru þó langt frá því að vera saddir og ætla að byggja ofan á árangurinn sem þegar hefur náðst.

„Fyrst og fremst mjög mikil samheldni í liðinu og ég kom náttúrulega seint inn í þetta og liðið var þá orðið mjög rútínerað og allar að vinna í átt að sama markmiði,“ segir Arna.

Hvaða markmið setti FH sér fyrir tímabilið?

„Við settum okkur bæði langtíma og skammtíma markmið fyrir tímabil að enda í efri hlutanum fyrir úrslitakeppnina. En við erum ekki saddar og ætlum okkur ennþá lengra. Tökum bara einn leik fyrir í einu og sjáum hvert það skilar okkur,“ segir Sunneva.

Arna segir að íslenska liðið muni nota næstu daga til að stilla saman strengina fyrir átök haustsins þegar Ísland tekur þátt í Þjóðadeildinni í fyrsta sinn.

„Steini talaði um að drilla liðið saman í ýmsum hlutum. Prófa nýja hluti en þetta er fyrst og fremst undirbúningur fyrir haustið,“ segir Arna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×