Körfubolti

Stefnir á endur­komu eftir bar­áttu við þung­lyndi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Waiters í leik með Lakers.
Waiters í leik með Lakers. Kevin C. Cox/Getty Images

Hinn 31 árs gamli Dion Waiters stefnir á endurkomu í NBA-deildina en hann hefur ekki spilað í henni síðan hann var hluti af meistaraliði Los Angeles Lakers sumarið 2020. Hann hefur glímt við þunglyndi og segir mikilvægt fyrir fólk að tala við einhvern.

Waiters kom inn í NBA-deildina árið 2012 þegar hann Cleveland Cavaliers valdi hann í nýliðavalinu. Árið 2015 færði hann sig yfir til Oklahoma City Thunder og ári síðar fór hann til Miami Heat.

Þaðan fór hann svo til Lakers og varð meistari áður en hann varð samningslaus. Síðan þá hefur hann glímt við bæði kvíða og þunglyndi.

„Ég var ekki bara ekki að njóta mín. Ég hef hugsað um að vera ekki lengur hér en ég á börn. Ég vil frekar að mér líði illa það sem eftir er af ævi minni frekar en að börnin mín alist upp án þess að faðir þeirra sé til staðar,“ sagði Waiters í viðtali við Bleacher Report eftir opna æfingu nýverið þar sem njósnarar frá NBA-liðum fengu að sjá hvernig líkamlegt ásigkomulag Waiters er.

„Það var mikið myrkur. Suma daga lá ég upp í rúmi allan daginn, ég hafði ekkert til að draga mig fram úr. Ég var ekki að mæta á æfingar eða ræktina. Þetta var barátta andlega. Að fara til sálfræðings var mögulega það besta sem hefur komið fyrir mig. Ég vil að heimurinn viti, sérstaklega okkar samfélag að það er allt í lagi að fara til sálfræðings.“

„Ég lærði að ég var ekki fórnarlambið. Ég þurfti að taka ábyrgð á gjörðum mínum. Ég get nú kennt syni mínum hvað ég gerði rangt svo hann geri ekki sömu mistök og ég. Vill að fólk viti að það er ekki eitt, þetta er ekki endirinn. Ef þú þarft að tala við einhvern þá er ég til staðar,“ sagði Waiters að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×