Fótbolti

Læri­sveinar Heimis úr leik í Gull­bikarnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leon Bailey, leikmaður Aston Villa, svekktur eftir tapið gegn Mexíkó í nótt.
Leon Bailey, leikmaður Aston Villa, svekktur eftir tapið gegn Mexíkó í nótt. Vísir/Getty

Jamaíka er úr leik í Gullbikarnum í knattspyrnu eftir 3-0 tap gegn Mexíkó í undanúrslitum í nótt. 

Lærisveinar Heimis Hallgrímssonar höfðu gert góða hluti í Gullbikarnum til þessa en það er mót þar sem lið úr norður- og Mið-Ameríku eigast við.

Það blés ekki byrlega fyrir lið Jamaíku í upphafi leiks því strax á 2. mínútu leiksins kom Henry Martin liði Mexíkó yfir með marki eftir sendingu Jesus Gallardo. Á 30. mínútu bætti Jesus Gallardo síðan við öðru marki fyrir Mexíkó og staðan í hálfleik 2-0.

Þriðja mark Mexíkó kom síðan í uppbótartíma leiksins. Það skoraði Roberto Alvarado efftir sendingu Gallardo. Lokatölur 3-0 og Jamaíka úr leik.

Gullbikarinn er fyrsta lokakeppnin sem Jamaíka spilar undir stjórn Heimis Hallgrímssonar en á mótinu vann liðið sína fyrstu leiki undir hans stjórn.

Í hinum leik undanúrslitanna gerði Panama sér lítið fyrir og vann Bandaríkin í vítaspyrnukeppni og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum gegn Mexíkó. Úrslitaleikurinn fer fram á sunnudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×