Erlent

„Wagn­er mál­a­lið­a­hóp­ur­inn er ekki til“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Yevgeny Prigozhin, stofnandi og eigandi Wagner group.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Yevgeny Prigozhin, stofnandi og eigandi Wagner group. AP/Telegram

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segist hafa boðið málaliðum Wagner group að berjast áfram í Úkraínu en að auðjöfurinn Yevgeny Prigozhin hafi hafnað því. Þetta mun hafa gerst á fundi þann 29. júní, nokkrum dögum eftir uppreisn Wagner og sókn málaliðanna að Moskvu.

Forsetinn ræddi við blaðamann ríkisrekna dagblaðsins Kommersant í gær þar sem hann sagði í fyrsta sinn frá sinni hlið af fundinum sem á að hafa farið fram. Pútín sagði 35 málaliða hafa fylgt Prigozhin á fundinn og að hann hafi staðið yfir í þrjár klukkustundir.

„Þeir hefðu allir getað haldið hópinn og haldið áfram að þjóna,“ sagði Pútín. „Ekkert hefði breyst fyrir þá. Þeir hefðu áfram verið leiddir af sama manni og hefur verið raunverulegur yfirmaður þeirra allan þennan tíma.“

Pútín sagði einnig að þegar hann lagði fram tilboð sitt hafi margir kinkað kolli en Prigozhin hafi þvertekið fyrir að menn hans myndu taka því.

Er uppreisn Wagner stóð yfir í síðasta mánuði lögðu málaliðarnir undir sig borgina Rostov og stefndu hraðbyr að Moskvu. Hópur þeirra er sagður hafa sett stefnuna á rússneska herstöð þar sem kjarnorkuvopn eru geymd.

Prigozhin hélt því fram að rússneski herinn hefði gert árásir á bækistöð Wagner í austurhluta Úkraínu og að margir málaliðar hefðu fallið og ætlaði hann að handsama Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, og Valery Gerasimov, formann herforingjaráðs Rússlands.

Rússneskir hermenn lögðu víða niður vopn, í stað þess að reyna að stöðva málaliðana en fáir ef einhverjir hermenn gengu til liðs við þá.

Hreinsanir í hernum

Síðan þá hafa fregnir borist af því að rússneskir herforingjar hafi verið handsamaðir. Aðrir hafa verið reknir úr starfi. Ekki er vitað hvar Prigozhin er staddur en hann hafði þar til í morgun ekki sést frá því uppreisnin átti sér stað.

Í morgun birtist mynd af honum á samfélagsmiðlum sem sýnir Prigozhin sitja á brókinni í rúmi og er hann að virðist í tjaldi. Hvar tjaldið er liggur ekki fyrir. Hann gæti verið staddur í Belarús, þar sem tjaldbúðir fyrir málaliða Wagner hafa verið reistar, en hann hann gæti einnig verið í einni af bækistöðvum Wagner í austurhluta Úkraínu.

Í frétt Wall Street Journal segir að samkvæmt heimildum miðilsins séu forsvarsmenn Varnarmálaráðuneytisins að elta uppi menn sem þeir gruna um svik eða litla hollustu. Þessi hreinsun er sögð umfangsmeiri en áður hafi komið fram.

WSJ segir minnst þrettán háttsetta herforingja hafa verið yfirheyrða og um fimmtán hafa verið rekna eða færða til í starfi.

Kommersant hefur eftir Pútín að hinir almennu málaliðar Wagner hefðu barist vel og leiðinlegt væri að þeir hefðu verið dregnir inn í þessa atburðarrás.

Reiddist við spurningu um Wagner

Er hann var spurður hvort Wagner myndi áfram koma að átökunum í Úkraínu virðist sem Pútín hafi orðið æstur, samkvæmt grein Kommersant. „Sko, Wagner málaliðahópurinn er ekki til,“ sagði hann. „Við höfum engin lög um málaliðahópa. Hann er einfaldlega ekki til.“

Shoigu, áðurnefndur varnarmálaráðherra, tilkynnti í síðasta mánuði að málaliðahópar yrðu felldir inn í rússneska herinn en Wagner group er þar á meðal. Prigozhin var mjög svo mótfallinn því en hann og Shoigu hafa lengi eldað grátt silfur saman. Líkur hafa verið leiddar að því að yfirlýsing Shoigu hafi verið dropinn sem fyllti mæli auðjöfursins og þess vegna hafi hann gert uppreisn.

Málaliðar Wagner hafa spilað stóra rullu í innrás Rússa í Úkraínu en gera það ekki lengur. Talsmenn varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sögðu í gær að málaliðarnir kæmu ekki lengur að átökum í Úkraínu. Yfirvöld í Rússlandi segja að málaliðarnir séu að láta vopn sín af hendi.


Tengdar fréttir

Borgarar pyntaðir í haldi Rússa og neyddir til þrælkunarvinnu

Rússar halda þúsundum óbreyttra úkraínskra borgara í fangelsum, bæði á yfirráðasvæðum þeirra í Úkraínu og í Rússlandi. Verið er að undirbúa mögulega fangelsun þúsunda Úkraínumanna til viðbótar en margir borgarar eru þvingaðir til þrælkunarvinnu.

Biden segir Bandaríkin og Norðurlönd deila sögu og framtíðarsýn

Forsætisráðherra segir leiðtoga Norðurlandanna hafa átt mjög frjálslegan og opinn fund með forseta Bandaríkjanna í Helsinki í dag. Auk öryggismála hafi meðal annars verið rætt um jafnréttis- og loftslagsmál ásamt málefnum Norðurslóða. Bandaríkjaforseti segir ríkin deila sameiginlegri sýn um frelsi og samvinnu.

Úkraína með annan fótinn í dyragætt NATO

Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins og G7 ríkjanna hétu því í dag að tryggja að Úkraína fái allt það sem landið þurfi á að halda til að mæta öllu ógnum sem kunna að steðja að landinu. Þá verður aðildarferli landsins að fullri aðild að NATO einfaldað til muna.

Ungverjar einnig hlynntir aðild Svía að NATO

Yfirvöld í Ungverjalandi ætla að styðja inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið en utanríkisráðherra landsins sagði í morgun að samþykkt innngöngu Svía væri nú eingöngu tæknilegs eðlis. Tyrkir og Ungverjar voru þeir einu sem settu sig á móti inngöngu Svía en Peter Szijjarto, áðurnefndur utanríkisráðherra, sagði í síðustu viku að Ungverjar myndu fylgja Tyrkjum, skiptu þeir síðarnefndu um skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×