Enski boltinn

Leik­menn á leið inn og út hjá Manchester City

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það er nóg um að vera á skrifstofunni hjá Manchester City. Riyad Mahrez er á leið frá félaginu en Josko Gvardiol á leið inn.
Það er nóg um að vera á skrifstofunni hjá Manchester City. Riyad Mahrez er á leið frá félaginu en Josko Gvardiol á leið inn. Vísir/Getty

Riyad Mahrez er á leiðinni frá Manchester City en félagið hefur samþykkt tilboð frá Al Ahli í Alsíringinn. City er hins vegar nálægt því að tryggja sér þjónustu Króatans Josko Gvardiol.

Mahrez hefur leikið með Manchester City síðan árið 2018 en þá kom hann til félagsins frá Leicester Cit. Þar varð hann enskur meistari árið 2016 sem einn af lykilmönnum liðsins.

Mahrez er 32 ára gamall og hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Al Ahli á morgun og mun í kjölfarið skrifa undir þriggja ára samning við sádiarabíska félagið. Hann verður þar meðal annars samherji Roberto Firmino og markvarðarins Edouard Mendy.

Mahrez fór ekki með City-liðinu í æfingaferð til Japan á dögunum og félagið er nú þegar farið að leita að eftirmanni hans. Félagið ætlar sömuleiðis að leggja enn meiri áherslu á að halda Portúgalanum Bernardo Silva sem hefur verið orðaður við Al Hilal síðustu vikurnar.

Guardiola að næla í sterkan miðvörð

Forráðamenn City eru hins vegar ekki aðeins í leikmannasölum þessa dagana því þeir eru við það að tryggja sér þjónustu króatíska miðvarðarins Josko Gvardiol. Gvardiol hefur leikið með RB Leipzig síðustu árin sem þar sem myndi missa annan lykilmann sinn í sumar. Dominik Szoboszlai fór frá félaginu til Liverpool fyrir ekki svo löngu síðan.

Blaðamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því á Twitter að samkomulag sé í höfn á milli City og Leipzig og að leikmaðurinn hafi samið um sinn persónulega samning við City fyrir mánuði síðan. Gvardiol lauk fyrri hluta læknisskoðunarinnar hjá City í dag.

Josko Gvardiol vakti athygli fyrir vaska framgöngu með króatíska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Katar í lok síðasta árs. Króatía vann þar til bronsverðlauna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×