Viðskipti innlent

„Bíl­stjórarnir sjálfir orðið fyrir tekju­missi“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Framkvæmdastjóri Hreyfils vill ekki tjá sig um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að svo stöddu en framkvæmdastjóri Hopp Leigubíla fagnar henni.
Framkvæmdastjóri Hreyfils vill ekki tjá sig um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að svo stöddu en framkvæmdastjóri Hopp Leigubíla fagnar henni. Vísir/Vilhelm

Fram­kvæmda­stjóri Hopp Leigu­bíla fagnar niður­stöðu Sam­keppnis­eftir­litsins sem telur Hreyfli hafa verið ó­heimilt að heimila ekki bíl­stjórum sínum að skrá sig hjá Hopp Leigu­bílum. Fram­kvæmda­stjórinn segir bæði Hopp og leigu­bíl­stjóra hafa orðið fyrir tekju­missi vegna þessa. Fram­kvæmda­stjóri Hreyfils vill ekki tjá sig um niður­stöðu Sam­keppnis­eftir­litsins.

„Þessi niður­staða styrkir það sem við trúum á og sýnir að við höfum túlkað lög­gjöfina rétt frá upp­hafi,“ segir Sæunn Ósk Unn­steind­óttir, fram­kvæmda­stjóri Hopp Leigu­bíla, í sam­tali við Vísi. Hún segir ljóst að nýrri lög­gjöf hafi verið ætlað að auka á ný­sköpun og þróun á leigu­bíla­markaði hér­lendis.

Haraldur Axel Gunnars­son, fram­kvæmda­stjóri Hreyfils, segir í skrif­legu svari til Vísis að hann muni ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Hann hyggst fara yfir úr­skurð Sam­keppnis­eftir­litsins með stjórn Hreyfils og lög­mönnum fyrir­tækisins.

Sæ­unn Ósk Unn­steins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Hopp Leigubíla.Vísir/Vilhelm

Segist engan veginn anna eftir­spurn

Sæunn segir að Hopp appið, þar sem hægt hefur verið að panta sér leigu­bíla í rúman mánuð, sé far­veita en ekki leigu­bíla­stöð. Hún megi vera starfandi og ekkert í nýjum lögum sem bindi leigu­bíl­stjóra við eitt fyrir­tæki.

„Þau voru sett fram til að auka tekjur og auka mögu­leika leigu­bíl­stjóra. Við erum ekki að gera neitt annað en það. Við erum að bjóða upp á tækni sem á að gera þessa þjónustu enn betri. Því að þetta er al­mennings­þjónusta sem skiptir okkur öll máli og er gríðar­lega mikil­væg.“

Sæunn segir ljóst að Hopp Leigu­bílar hafi orðið fyrir tekju­missi vegna á­kvörðunar Hreyfils. „Ekki bara það heldur hafa bíl­stjórarnir sjálfir orðið fyrir tekju­missi. Við erum engan veginn að anna eftir­spurn, okkur vantar fleiri bíl­stjóra,“ segir Sæunn.

„Það er bara gríðar­legt ó­jafn­vægi á þessum markaði og við því miður náum ekki að koma markaðnum á jafn­vægi á einni nóttu. En það tekur okkur enn lengri tíma þegar markaðurinn sjálfur hamlar þróun og ný­sköpun. Það er ekkert annað en það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×