Körfubolti

Hilmar Smári Henningsson til Þýskalands

Árni Jóhansson skrifar
Við fáum ekki að njóta þess að horfa á Hilmar Smára leika listir sínar á næsta tímabili.
Við fáum ekki að njóta þess að horfa á Hilmar Smára leika listir sínar á næsta tímabili. vísir/Diego

Landsliðsmaðurinn Hilmar Smári Henningsson hefur fært sig yfir á meginland Evrópu til að spila körfuknattleik. Hann er búinn að semja við Eisbären Bremerhaven í þýsku Pro A deildinni um að leika með liðinu á næsta tímabili. Hilmar var einn af betri leikmönnum Subway deildar karla á síðasta tímabili þar sem hann stýrði Haukum í þriðja sæti deildarinnar.

Hilmar Smári staðfestir þessar fregnir við Karfan.is fyrr í dag en leikmaðurinn átti mjög gott tímabil fyrir Hauka í Subway deild karla í körfubolta en hann var sá íslenski leimaður sem skoraði flest stig að meðaltali í leik eða 19,3 stig að meðaltali í leik. Það skilaði honum í sjöunda sætið á lista yfir stigahæstu menn í Subway deildinni.

Pro A deildin er næstefsta deild í Þýskalandi en Eisbären Bremerhaven féll úr efstu deild árið 2019 og endaði í áttunda sæti deildarinnar á síðasta tímabili. Hilmar stendur í ströngu þessa dagana en íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tekur þátt í æfingamóti í Ungverjalandi um helgina og etur þar kappi við Ísrael og heimamenn. 

Hilmar hefur hingað til leikið níu landsleiki fyrir Ísland en æfingamótið er hluti af undirbúningi fyrir forkeppni undankeppni Ólympíuleikanna í París2024 sem fram fer í Tyrklandi og hefjast leikar þar 10. ágúst nk. Með Íslandi í riðli í forkeppninni eru Tyrkir, Úkraína og Búlgaría og fara tvö efstu liðin áfram á næsta stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×