Stergo var handtekin í janúar og þremur mánuðum síðar játaði hún fjársvikin. Damian Williams, saksóknari í New York, tilkynnti í yfirlýsingu að Stergo hafi verið dæmd í 51 mánaða langt fangelsi.
Í yfirlýsingunni er farið yfir það sem kom fram fyrir dómi. Til að mynda segir í henni að Stergo hafi kynnst manninum fyrir um sex eða sjö árum í gegnum stefnumótavefsíðu. Stergo notaði hins vegar ekki eigið nafn heldur kallaði hún sig Alice.
Villti á sér heimildir
Stergo hóf að svíkja fé úr manninum í maí árið 2017 og hélt því áfram að minnsta kosti fram í október árið 2021. Níræði maðurinn gaf Stergo peninginn því hún sagðist þurfa á hjálp að halda til að fá pening úr uppgjöri.
„Í fjögur og hálft ár hélt Stergo áfram að ljúga,“ segir í yfirlýsingunni. Stergo bað manninn reglulega um að leggja inn á sig pening. Hún sagði að ef hann myndi ekki gera það þá yrði reikningum hennar lokað. Þá gæti hann aldrei fengið peninginn sinn aftur til baka.
Einnig kemur fram að Stergo hafi villt á sér heimildir. Hún hafi til dæmis útbúið netfang til að láta eins og hún væri bankastarfsmaður. Þá útbjó hún reikninga og bréf og lét eins og það kæmi allt frá starfsmanni bankans.
Lúxus á kostnað mannsins
Maðurinn endaði á að missa íbúðina sína vegna svika Stergo. Á sama tíma notaði hún peninginn hans til að kaupa sér nýtt heimili, auka íbúð í blokk, bát og nokkra bíla. Þá fór hún í dýr ferðalög, gisti á fínum hótelum og eyddi töluverðum fjárhæðum í mat, gullpeninga, skartgripi, Rolex úr og merkjavörur.
Það var ekki fyrr en í október árið 2021 sem maðurinn sagði syni sínum frá því sem hafði gerst. Þá hætti hann að gefa Stergo pening.
„Hún notaði milljónir dala til að lifa lúxuslífi á kostnað fórnarlambsins,“ segir saksóknarinn. „En hún komst ekki upp með það. Líkt og þessi dómur sýnir þá munu gerendur í rómantískum svikamálum þurfa að svara fyrir glæpi sína.“