Körfubolti

Fyrir 699 dollara geturðu látið Jimmy Butler rústa þér 1-1 í körfubolta

Siggeir Ævarsson skrifar
Jimmy Butler er þekktur fyrir mikið keppnisskap
Jimmy Butler er þekktur fyrir mikið keppnisskap Vísir/Getty

Jimmy Butler, leikmaður Miami Heat, stendur fyrir körfuboltabúðum fyrir 7-18 ára börn dagana 26. og 27. ágúst í Fort Lauderdale. Nokkrir heppnir þátttakendur geta borgað aukalega fyrir að spila 1-1 á móti Butler.

Þátttaka í búðunum kostar 349 dollara og er allt það helsta innifalið fyrir unga og upprennandi körfuboltaiðkendur. En fyrir 699 dollara er hægt að bóka 1-1 einvígi gegn Butler á seinni degi búðanna, og aðeins eru örfá sæti í boði, fyrstir koma fyrstir fá.

Reglurnar eru einfaldar, fyrstur til að skora tvær körfur vinnur og foreldrar mega keppa á móti Butler ef þeir vilja. 

Það verður að teljast nokkuð líklegt að Butler vinni hvert einasta einvígi, nema auðvitað að hann leyfi andstæðingunum að vinna. Butler, sem hefur sex sinnum verið valinn í stjörnuleik NBA, fimm sinnum á annað varnarlið ársins og er tveir metrar á hæð og 100 kg, getur skorað að vild gegn hverjum sem er hvenær sem er.

Nokkrir notendur vefsíðunnar Reddit töldu að þeir gætu auðveldlega unnið Butler 1-1. Hversu góður gæti hann eiginlega verið? Svarið er mjög góður. 

Fyrir nokkrum árum ákvað NBA goðsögnin Brian Scalabrine að leyfa nokkrum meðalljónum að keppa við sig, en hann var orðinn leiður á að sjá netnotendur fullyrða að þeir gætu rústað honum í körfu. Scalabrine, sem var aldrei nema kannski tæplega meðalleikmaður í NBA og skoraði 3,1 stig að meðaltali á ferlinum, rústaði að sjálfsögðu öllum leikjunum.

Eins og hann sagði sjálfur eftir þetta: „Ég er nær LeBron í getu en þú ert mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×