Viðureign Aftureldingar og Grindavíkur var sannkallaður sex stiga leikur, en einu stigi munaði á liðunum í 5. og 6. sæti fyrir leik kvöldsins. Afturelding með 20 en Grindavík 19 og liðin í 2. og 3. sæti bæði með 23 stig svo að það var mikið undir.
Grindavíkurkonur urðu fyrir blóðtöku á 42. mínútu þegar Dominiqe Evangeline Bond-Flasza fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þær voru þó ekki dauðar úr öllum æðum en Afturelding bjargaði á línu skömmu seinna.
Afturelding gerði svo út um leikinn á 69. mínútu þegar Maya Camille Neal skoraði þriðja mark heimakvenna en Meghan Callahan Root skoraði fyrstut tvö mörk þeirra.
Í Vesturbænum var blásið til bleikrar góðgerðafótboltaveislu en það var því miður nánast það eina jákvæða sem KR-ingar gátu tekið út úr kvöldinu. Grótta komst í 0-3 strax í fyrri hálfleik en Jewel Boland lagaði stöðuna á 62. mínútu.
Ariela Lewis skoraði svo sitt annað mark í leiknum en hún opnaði og lokaði markaskorun kvöldsins. KR því áfram við botn deildarinnar, í næst neðsta sæti með sjö stig en Grótta fer í 23 og upp að hlið Fylkis og HK. Fylkir og HK mætast svo annað kvöld.