Innlent

Verslunar­manna­helgin fer vel af stað

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Ein með öllu fer fram á Akureyri um helgina. 
Ein með öllu fer fram á Akureyri um helgina.  Vísir/Vilhelm

Skemmtanahald og umferð hefur gengið vel nú þegar stærsta ferðahelgi ársins fer fram og hátíðarhöld víða um land. Gestir á Þjóðhátíð eru fleiri en síðustu ár en þeim hefur fækkað á Akureyri.

Gærkvöldið og nóttin gengu áfallalaust fyrir sig. Umferð gekk vel og veðrið milt og gott um nánast allt land. Skemmtanahald víða um land fór fram án teljandi vandkvæða þrátt fyrir að verkefni lögreglunnar hafi verið þónokkur.

Í Vestmannaeyjum er gríðarlegur fjöldi fólks samankominn á stærstu útihátíð landsins, Þjóðhátíð. Talsverð ölvun var á svæðinu og lögregla hafði afskipti af einum aðila sem grunaður er um ölvunarakstur.

„Veðrið var alveg prýðilegt. Gestir voru fleiri en til dæmis í fyrra, það eru mjög margir komnir hingað,“ segir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Nóttin hafi farið ágætlega fram frá sjónarhorni lögreglunnar.

„Auðvitað komu upp töluvert af fíkniefnalagabrotum, minniháttar, eitthvað af líkamsárásum en ekkert alvarlegt að öðru leiti,“segir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Færri á Akureyri en undanfarin ár

Á Akureyri fer fram fjölskylduhátíðin Ein með öllu. Jón Valdimarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri segir fólk hafa hegðað sér vel. Færri séu í bænum en oft áður um Verslunarmannahelgi. 

„Verkefni næturinnar voru þónokkur en gengu vel fyrir sig. Það er talsvert af fólki í bænum þó við höfum alveg séð stærri helgar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×