„Ég er búinn að vera síðan þrjú í gær, þannig já, þetta eru eiginlega tuttugu og fjórir tímar,“ segir Sindri Levi Ingason sem heldur úti Youtube síðunni Sindri Levi.
„Það er búið að vera mjög mikil rigning en ég er búinn að fá eitthvað um 230 áskrifendur og ég hætti ekki fyrr en ég er kominn upp í þúsund.“
Ég er svo spenntur, tilbúinn að gera allt sko.
En hvers vegna skiptir svona miklu máli að fá þúsund fylgjendur?
„Mig langar bara að koma þessu af stað, ég nenni ekki að bíða lengur, þetta er bara draumurinn minn. Mig langar bara virkilega að komast upp í milljón áskrifendur til dæmis, það væri bara geggjað.“
Varðandi tímasetninguna á gjörningnum segist Sindri ekki hafa hugsað út í að það væri Verslunarmannahelgi, hann hafi reyndar ekki vitað af því.
Svaf ekkert í nótt
Aðspurður um hvers konar efni sé á Youtube síðunni segir Sindri að enn sem komið er sé ekki neitt, en þetta „muni verða mjög stórt.“
Hann segir nóttina ekki hafa verið svo slæma þrátt fyrir að hann hafi ekkert sofið. Margir hafi komið með mat handa honum og spjallað.
„Fólk er svo næs, það er það mesta sem ég hef lært af þessu,“ segir Sindri.
Og þú ert alveg harðákveðinn í því að þú ferð ekki héðan fyrr en fylgjendurnir eru orðnir þúsund?
„Já, það er ekki séns.“