Ísland dróst í dag í B-riðil með Ítalíu, Tyrklandi og Ungverjalandi. Íslandi var raðað í 7. styrkleikaflokk fyrir dráttinn og fékk eitt lið úr 2., 3. og 6. flokki með sér í riðil.
Ítalía kom úr 2. flokknum, Tyrkland úr 3. flokki og Ungverjaland úr 6. flokknum, en hér að neðan má sjá allan dráttinn.

Ísland var einmitt einnig í riðli með Ítalíu í síðustu undankeppni HM, og vann þá frækinn sigur í framlengdum leik í heimaleik sínum.
Ísland mætti Ungverjalandi fyrir aðeins níu dögum, á æfingamóti í Ungverjalandi, og tapaði þá naumlega, 73-69, eftir að hafa verið ellefu stigum undir í hálfleik, 40-29.
Íslenska liðið er svo í riðli með Tyrklandi í undankeppni Ólympíuleikanna, þar sem liðið hefur keppni á laugardaginn með leik við Tyrki og spilar svo einnig við Úkraínu og Búlgaríu, en allir leikirnir fara fram í Tyrklandi.
Þrjú efstu liðin í hverjum riðli fara áfram í lokakeppni EM. Með góðum árangri í undankeppni HM síðastliðin tvö ár tryggði Ísland sér sæti beint í undankeppni EM í stað þess að þurfa að fara í forkeppnina.
Leikið verður í undankeppni EM árið 2024 dagana 19.-27. febrúar og 18.-26. nóvember, og síðan 17.-25. febrúar 2025. Tveir leikir verða spilaðir í hverjum landsliðsglugga.