Mörg af liðum sádiarabísku deildarinnar hafa safnað til sín leikmönnum úr stórliðum Evrópu og því hafa margir beðið spenntir eftir upphafi deildarinnar.
Roberto Firmino, sem gekk í raðir Al Ahli frá Liverpool í sumar, stal senunni í opnunarleik tímabilsins þegar hann skoraði þrennu í kvöld. Hann kom heimamönnum yfir strax á sjöttu mínútu og fjórum mínútum síðar tvöfaldaði hann forystu liðsins eftir stoðsendingu frá Riyad Mahrez, fyrrverandi leikmanni Manchester City.
Gestirnir minnkuðu þó muninn snemma í síðari hálfleik áður en Firmino fullkomnaði þrennu sína og innsiglaði um leið 3-1 sigur Al Ahli með marki á 72. mínútu.