Lífið

Mur­doch kominn með nýja upp á arminn

Kjartan Kjartansson skrifar
Rupert Murdoch veður greinilega í tækifærum þrátt fyrir að hann sé á tíræðisaldri.
Rupert Murdoch veður greinilega í tækifærum þrátt fyrir að hann sé á tíræðisaldri. Vísir/EPA

Fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch er sagður byrjaður að hitta nýja konu, aðeins fjórum mánuðum eftir að hann sleit skyndilega trúlofun sinni við íhaldssaman útvarpsþáttastjórnanda. Nýja parið hefur siglt um Miðjarðarhafið undanfarnar vikur.

Sú nýja heitir Elena Zhukova. Murdoch er sagður hafa kynnst henni á stórri fjölskyldusamkomu sem Wendi Deng, fyrrverandi eiginkona hans, skipulagði. Zhukova er 66 ára gamall vísindamaður en ástralski auðjöfurinn 92 ára. Hún var áður gift bresk-rússneska milljarðamæringnum Alexander Zhukov, að sögn The Guardian.

Darja Zhukova, dóttir Zhukovu, var gift Roman Abramovitsj, rússneskum ólígarka og fyrrverandi eiganda enska knattspyrnuliðsins Chelsea, til ársins 2018.

Leigusnekkjan sem Murdoch og Zhukova hafa notið lífsins á er sögufræg. Hún var áður í eigu Aristotle Onassis og er hann sagður hafa gert hosur sínar grænar fyrir Jackie Kennedy, ekkju Johns F. Kennedy Bandaríkjaforseta, á henni.

Murdoch var trúlofaður Ann Lesley Smith, fyrrverandi fyrirsætu og útvarpsþáttastjórnanda. Ástæðan fyrir því að hann sleit trúlofuninni stuttu eftir að sagt var frá henni opinberlega var sögð sú að honum hafi þótt kristilegur trúarofsi Smith óþægilegur.

Zhukova er önnur konan sem Murdoch leggur lag sitt við frá því að hann skildi við Jerry Hall, fjórðu eiginkonu sína, í ágúst í fyrra.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×