Amalía Ósk Sigurðardóttir, sem er 26 ára gömul er ein af konunum. „Ég er ein af þeim bestu á landinu, hef slegið mörg Íslandsmetin í íþróttinni síðan ég keppti á mínu fyrsta móti fyrir 6 árum og hef keppt á stórmótum víðs vegar um heim. Ásamt því að æfa ólympískar lyftingar þjálfa ég og sé um allt starf í Boot Camp í Sporthúsinu. Allur minn grunnur fyrir lyftingarnar koma úr Boot Camp en ég stundaði Boot Camp af fullum krafti fyrir þær,” segir Amalía.
Flýgur út 5. september
„Ég er á leiðinni á mitt annað heimsmeistaramót í ólympískum lyftingum. Mótið er haldið í borginni Riyadh í Saudi Arabíu og flýg ég út 5.september. Þetta er lang stærsta mótið en það eru rúmlega 800 skráðir þátttakendur úr nánast öllum löndum í heiminum. Þú þarft að ná ákveðnum lágmörkum til þess að mega keppa á mótinu svo allir keppendur eru háklassa. Við erum þrjár stelpur frá Íslandi að keppa á mótinu og fáum flott teymi með okkur út,” segir Amalía.

Mest lyft 103 kílóum í jafnhendingu
Amalía Ósk hefur mest lyft 103 kg í jafnhendingu og 84 kg í snörun. „Það er keppt í þyngdarflokkum í ólympískum lyftingum og hef ég alltaf keppt í undir 64 kg flokknum. Ég er fyrst og fremst að keppa á þessu móti til að koma mér aftur á pallinn og er markmiðið mitt að ná lyftunum mínum, hafa gaman og njóta þess að keppa aftur eftir erfitt tímabil, finna eldmóðinn minn aftur.”
Þarf að greiða allan kostnað sjálf
Íslensku keppendurnir á mótinu þurfa að greiða allan sinn kostnað sjálfir við mótið. „Já eins og eflaust margir vita er illa búið að afreksíþróttafólki á Íslandi og þarf ég að greiða allan kostnað sjálf fyrir ferðina, bæði fyrir mig og þjálfarann minn sem ég vil hafa með mér úti. Ég hef reynt að hafa samband við mörg fyrirtæki á Íslandi í von um að fá styrki en það gengið illa, það er lítið um svör. En samt sem áður óendanlega þakklát fyrir þau fyrirtæki sem hafa styrkt mig. Svo á morgun, sunnudaginn 20. ágúst ætla ég að halda Boot Camp styrktaræfingu fyrir mig þar sem fólk borgar 2.000 kr fyrir æfinguna, fær að svitna og hafa gaman í klukkutíma og styrkja mig í leiðinni. Ferðin er dýr og mun það hjálpa mér mikið,” segir Amalía.
