Cybertruck var frumsýndur í desember árið 2019 og vakti strax gríðarmikla athygli. Áhugasamir gátu strax forpantað sér eintak fyrir hundrað Bandaríkjadali. Að sögn Musk voru forpantanirnar orðnar um 250.000 talsins á fyrstu vikunni.
Frá því að bíllinn var frumsýndur hefur margt breyst, verð bílsins hækkað mikið frá því sem var upprunalega talað um og hefur útgáfu hans verið seinkað ítrekað.
Nú virðist þó vera farið að sjá fyrir endann á þeirri frestunarsögu ef marka má nýjustu fréttir. Bandarískir miðlar segja framleiðslu á bílnum þegar farna af stað í Texas. Þá hefur sést til stórra flutningabíla ferja Cybertruck-eintök yfir Bandaríkin. Sömuleiðis hafa prótótýpur af bílnum dúkkað upp víða um heim.
Í gær sást til Teslutrukks á íslenskum jökli, sem virðist vera Langjökull. Á Twitter birtist myndband þar sem má sjá Cybertruck keyra eftir jöklinum með svartan Land Rover Discovery á undan sér. Talið er að um sé að ræða auglýsingu fyrir pallbílinn óútkomna.
@elonmusk @Tesla Cybertruck at the glacier. pic.twitter.com/GWSJqNvkYc
— CRAR (@carlosRdeA) August 19, 2023
Á Facebook-síðunni Cybertruck á Íslandi voru einnig birtir myndir af Cybertruck. Af myndinni er greinilegt að um Ísland er að ræða út frá hvítum sendiferðabíl sem er merktur Keyrsla.is. Sennilega er um sama eintak að ræða þar sem einnig má sjá svartan Land Rover á myndinni og kvikmyndatökufólk.

Það er ekki enn búið að greina frá því hvenær Cybertruck kemur út nákvæmlega en Elon Musk, forstjóri Tesla, talaði um að þeim yrði dreift í lok þriðja ársfjórðungs sem myndi þýða í lok september.