Fótbolti

Stelpurnar okkar hækka sig hjá FIFA og bara þrettán lið betri en þær í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frænkurnar Dagný Brynjarsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir hressar á EM í fyrra.
Frænkurnar Dagný Brynjarsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir hressar á EM í fyrra. VÍSIR/VILHELM

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er fjórtánda besta landslið heims samkvæmt nýjum styrkleikalista Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, sem var gefinn út í morgun.

Íslenska landsliðið hækkar sig um eitt sæti úr því fimmtánda upp í það fjórtánda. Íslenska liðið hóf árið í sextánda sæti og hefur því hækkað sig um tvö sæti á árinu 2023.

Íslensk landslið, karla né kvenna, hefur aldrei verið eins ofarlega á heimslista FIFA þótt að stelpurnar séu þó bara að jafna sinn besta árangur núna.

Svíar, sem hækka sig um tvö sæti, eru efstar á heimslistanum en nýkrýndir heimsmeistarar Spánar ná bara upp í annað sætið. Bandaríska landsliðið dettur niður í þriðja sætið en liðið var á toppi listans fyrir heimsmeistaramótið í Ástralíu og Nýja Sjálandi. Spænska liðið hækkar sig um fjögur sæti sem er glæsilegt.

England og Frakkland halda bæði sætum sínum í fjórða og fimmta sæti listans.

Af þjóðum á topp tíu þá hækka Holland (7. sæti) og Japan (8. sæti) sig á listanum en Þýskaland (6. sæti), Brasilía (9. sæti) og Kanada (10. sæti) eru á niðurleið sem og Ástralíu sem situr núna í ellefta sæti. Þýskaland fer niður um heil fjögur sæti og Kanada niður um þrjú sæti. Japanar fara upp um þrjú sæti.

Næstu þjóðir fyrir ofan Ísland (14. sæti) eru Danmörk (12. sæti) og Noregur (13. sæti) en Ísland komst upp fyrir Kína (15. sæti) á þessum nýja lista.

Fram undan hjá íslenska landsliðinu er Þjóðadeildin í haust. Ísland hefur leik í Þjóðadeild kvenna á Laugardalsvelli þann 22. september næstkomandi. Með Íslandi í riðli eru Wales, Danmörk og Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×