Rósa Björk er að snúa heim en hún hefur leikið allan sinn feril með Haukum að síðasta vetri undanskildum þar sem hún lék með Breiðabliki. Hún var einn af lykilleikmönnum Breiðabliks í vetur með 11,4 stig í leik og 6,8 fráköst.
Rebekka Rut kemur til Hauka frá ÍR sem kvöddu Subway-deildina í vor. Rebekka er 19 ára gömul og er uppalinn hjá Grindavík en hefur einnig leikið með Stjörnunni.
Haukar höfðu áður tilkynnt um komu landsliðsleikstjórandans Þóru Kristínar Jónsdóttur til liðsins en hún hafði leikið allan sinn feril með Haukum áður en hún hélt út til Danmerkur til náms sumarið 2021.
Haukar náðu sjaldnast að stilla upp sínu sterkasta liði síðasta tímabil en meiðslin sem hrjáðu liðið voru á köflum lyginni líkust. Það var því ekki vanþörf á að stækka hópinn, en Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur lagt skóna á hilluna og þá er Jana Falsdóttir farin í Njarðvík.
