Óhætt er að segja að um eitt vinsælasta hlaðvarp landsins sé að ræða enda fáheyrt að hlaðvarpsstjörnur fylli heila tónleikahöll af áhorfendum. Þetta er í áttunda sinn sem hópurinn heldur svokallað Lifandi hlaðvarp en þessi viðburður er sá langstærsti til þessa og verður sennilega seint toppaður, nema hópurinn haldi utan landsteinanna.
Fylltu Eldborgarsal Hörpu á hálftíma
Alls seldust 1.600 miðar á viðburðinn sem haldinn var í Eldborgarsal Hörpu.
Þrjátíu og fimm mínútum eftir að forsala hófst voru allir miðarnir seldir. Það voru því margir svekktir hlustendur þáttanna sem náðu ekki í miða. Þríeykið segist ekki hafa búist við svona gríðarlegum undirtektum.

Spurð hvernig tilfinningin hafi verið að stíga inn í stútfullan salinn segir Tinna Björk það hafa verið ólýsanlegt.
„Það er erfitt að lýsa því í fáum orðum hvað þetta var stórkostleg upplifun. Stemningin og krafturinn frá áhorfendum var eitthvað sem við munum aldrei gleyma. Sýningin sjálf gekk framar vonum. Það getur ekki mikið klikkað með svona áhorfendur í salnum.“
Skemmtilegasta vinna í heimi
Tinna ítrekar þakklæti þríeykisins gagnvart öllum þeim sem lögðu hönd á plóg.
„Við erum svo botnlaust þakklát öllum sem hafa komið að þessarri vegferð með okkur og langar af öllu hjarta að þakka gestunum okkar Unnsteini Manuel, Huginn og Vilhelm Neto sérstaklega fyrir að taka þátt í þessu með okkur. Að okkar mati er ekki til betri leið til að fagna fimm árum saman í skemmtilegustu vinnu í heimi.“
Hér fyrir neðan má sjá myndir af dyggum aðdáendum hlaðvarpsins mæta í Hörpu.
















