Á fimmtudag var greint frá rúmlega fjögurra milljarða sekt Samskipa vegna brota á samkeppnislögum. Með samráði við annað flutningafélag, Eimskip, hækkuðu félögin verð gagnvart viðskiptavinum sínum en félögin tvö eru næstum allsráðandi á íslenskum flutningamarkaði.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir brotin sem fyrirtækið gerðist uppvíst að vera aðför að neytendum. Miklar líkur séu á að hækkað verð á flutningum skili sér til neytenda í hækkuðu vöruverði.
„Það er náttúrulega alveg galið að svona samráð eigi sér stað og það sýnir sig hversu mikilvægt er að það sé virkt aðhald á markaðinum til þess að veita fyrirtækjum aðhald hér á Íslandi. Það er alveg ótrúlegt hvað margir stjórnendur stórra fyrirtækja, ef maður lítur á söguna í gegnum tíðina, hafa farið yfir strikið. Eins og í þessu tilviki virðist vera sem að það hafi verið farið alveg rækilega og langt yfir strikið,“ segir Breki.
Það sé mikilvægt fyrir Íslendinga að geta treyst á virka samkeppni þar sem venjulega eru aðeins þrjú eða fjögur fyrirtæki á hverju sviði. Efla þurfi eftirlit því mörg fyrirtæki veigri sér ekki við því að brjóta samkeppnislög.
„Þetta er bara afar sorglegt að stjórnendur fyrirtækja skuli haga sér á svona hátt og brjóta svona á okkur neytendum. Brot á samkeppnislögum er aðför að neytendum,“ segir Breki.