Sólveig segir í samtali við Vísi að verið var að taka niður klæðningu og burðarþolsmæla þak hússins þegar miðinn fannst. Næsta sumar verði skipt um þak á Gamla skóla menntaskólans og skífur settar á þakið til þess að gefa húsinu upprunalegri mynd. Þakið verður það þriðja sem sett verður á húsið frá árinu 1846, þegar húsið var byggt.

„Það er dálítið skemmtilegt að þetta komi upp þegar það er verið að taka niður einhverja klæðningu, eins og einhver hafi troðið þessu á bak við,“ segir Sólveig og hlær. „Kannski að hann hafi verið gripinn og kennarinn verið að mæta og hann eða hún troðið þessu á bak við.“
Sólveig segir það líklegt að svindlmiðinn hafi verið notaður á söguprófi vegna þess hve mörg ártöl og dagsetningar er að finna á miðunum. „Ég held að það sé talið upp að árinu 1958, þannig að þetta hefur verið skrifað eftir það,“ segir hún.

Miðinn er merktur fyrirtækinu Myndamót hf. sem starfaði á árunum 1957-1989, eftir þeim heimildum sem fréttastofa kemst næst. Því má draga þá ályktun að miðinn sé yfir þrjátíu ára gamall, og jafnvel eldri en það.
Loks vekur Sólveig athygli á því að kannist einhver við miðann megi viðkomandi vitja hans á skrifstofu rektors, ef hann þorir.
