Eins og Vísir hefur greint frá hafa íbúar í hverfinu kvartað undan litlum þrýstingi á kalda vatninu heima hjá sér eftir viðgerðir Veitna á kaldavatnslögn þann 8. ágúst síðastliðinn. Einn íbúi sem Vísir ræddi við sagði að einungis kæmi sjóðandi heitt vatn úr sturtunni og þá væri nær ómögulegt að fá volgt vatn úr krana. Íbúinn kvartaði jafnframt undan misvísandi upplýsingum frá Veitum, sem hafi gefið nokkrar skýringar á málinu.
Vandræðin undanfarnar vikur voru ítrekað rædd á íbúahópi Háaleitishverfis á samfélagsmiðlinum Facebook. Lýstu einhverjir íbúar því að þeir hefðu gefist upp og skipt um blöndunartæki heima hjá sér til að bregðast við vandanum. Í lok ágúst lagði einn íbúa til að efnt yrði til gjörnins þar sem íbúar myndu afhenda Veitum gömul blöndunartæki og reikninga vegna skiptanna.
Bráðabirgðatenging tekin af
Íbúar lýsa því nú í íbúahópnum að þeir hafi tekið eftir því í gær að þrýstingurinn á kalda vatninu sé kominn í lag. Þá sé hægt að nálgast volgt vatn að nýju. Níu íbúar lýsa sömu sögu og segist einn þeirra hafa komist í sturtu eftir fjögurra vikna notkun á vaskafati.
„Miðað við svörin frá Veitum á sínum tíma, þá var allt í lagi áður og ekkert sem þurfti að laga. Og núna virðist búið að laga það. Þetta eru ókannaðar slóðir í vatnsmiðlunarævintýrum…“ skrifar einn íbúa í kaldhæðni.
Í svörum frá Veitum til Vísis vegna málsins segir að í fyrradag hafi verið bráðabirgðartenging tekin af samkvæmt plani og varanleg tenging sett aftur. „Við það er ekki útilokið að þrýstingur hafi aukist lítillega inn à dreifikerfið.“
Áður sögðu Veitur í svörum til fréttastofu að ekki hefðu borist margar tilkynningar frá íbúum hverfisins vegna málsins. Starfsfólk Veitna hefði farið í þó nokkur hús þann 8. ágúst og mælt þrýsting á kalda vatninu, sem hafi verið í lagi.