Sport

Elín Klara skoraði tíu mörk í sigri Hauka

Andri Már Eggertsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði 10 mörk í kvöld Vísir/Vilhelm

Haukar unnu tveggja marka útisigur gegn Stjörnunni 26-28 í 1. umferð Olís deildar kvenna. 

Haukar áttu frábæra byrjun gegn Stjörnunni og gerðu fyrstu þrjú mörkin. Stjarnan komst í betri takt við leikinn og minnkaði forskot Hauka niður í eitt mark um miðjan fyrri hálfleik. Gestirnir tóku síðan aftur við sér og voru þremur mörkum yfir í hálfleik 15-18.

Stjarnan byrjaði síðari hálfleik af miklum krafti. Varnarleikur heimakvenna datt í gang og Haukar fundu engin svör. Eftir að hafa skorað átján mörk í fyrri hálfleik skoruðu Haukar eitt mark á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks. Eftir 45 mínútur var Stjarnan tveimur mörkum yfir 21-19.

Haukar komust í gang og síðustu tíu mínúturnar voru æsispennandi. Haukar höfðu betur að lokum og unnu tveggja marka sigur 26-28.

Elín Klara Þorkelsdóttir fór venju samkvæmt fyrir sínu liði og var markahæst með tíu mörk úr tólf skotum.

Embla Steindórsdóttir var markahæst hjá Stjörnunni með sjö mörk. Embla kom til Stjörnunnar frá HK fyrir tímabilið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×