Fótbolti

Van Gaal segir kraftaverk ef hann getur farið sjálfur á klósettið aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Louis van Gaal glímir við krabbamein í blöðruhálskirtli.
Louis van Gaal glímir við krabbamein í blöðruhálskirtli. getty/Richard Sellers

Fótboltaþjálfarinn þekkti, Louis van Gaal, kemst að því á næstu dögum hvort aðgerðin sem hann fór í vegna krabbameins í blöðruhálskirtli heppnaðist.

Van Gaal greindi frá því í aðdraganda HM í Katar að hann væri með krabbamein. Hann kom Hollendingum í átta liða úrslit á HM þar sem þeir töpuðu fyrir Argentínumönnum í vítaspyrnukeppni. Van Gaal vill þó meina að brögð hafi verið í tafli á HM, til að láta Lionel Messi verða heimsmeistara í fyrsta sinn.

Hinn 72 ára Van Gaal hefur gengist undir 25 geislameðferðir vegna krabbameinsins og farið í aðgerð. Og í næstu viku fær hann að vita hvort aðgerðin skilaði tilætluðum árangri.

„Hvernig er ég? Ég fór í aðgerð fyrir tveimur eða þremur vikum,“ sagði Van Gaal. „Þeir gerðu allt sem þeir gátu, án þess ég fari nánar út í þá sálma, en núna þurfum við að bíða og sjá.

Van Gaal segir kraftaverk ef hann getur sinnt nokkrum athöfnum daglegs lífs aftur.

„Nítjánda september fer ég aftur og allt kemur í ljós. Það verður kraftaverk ef ég get farið aftur einn á klósettið,“ sagði Hollendingurinn.

Van Gaal hætti sem þjálfari hollenska landsliðsins eftir HM í Katar. Það tapaði ekki leik undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×