Innherji

Klárar sína fyrstu fjár­festingu með kaupum á 40 prósenta hlut í KAPP

Hörður Ægisson skrifar
Elfa Valdimarsdóttir og Freyr Friðriksson eigendur KAPP, Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf, Brynjólfur Gísli Eyjólfsson, sjóðstjóri IS Haf, og Runólfur Guðmundsson. framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Elfa Valdimarsdóttir og Freyr Friðriksson eigendur KAPP, Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri IS Haf, Brynjólfur Gísli Eyjólfsson, sjóðstjóri IS Haf, og Runólfur Guðmundsson. framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.

Sjóðurinn IS Haf, sem fjárfestir í haftengdri starfsemi, hefur gengið frá kaupum á 40 prósenta eignarhlut í tæknifyrirtækinu KAPP og mun sömuleiðis leggja félaginu til aukið hlutafé til frekari vaxtar. Þetta er fyrsta fjárfesting sjóðsins, sem er um tíu milljarðar að stærð og að stærstum hluta í eigu ÚR, Brim og lífeyrissjóða, en stjórnendur hans telja umtalsverð vaxtartækifæri vera til staðar fyrir íslensk tæknifyrirtæki í sjávarútvegi.

KAPP, sem er alfarið í eigu Freys Friðrikssonar og Elfu Valdimarsdóttur, sérhæfir sig í kæliþjónustu, sölu og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Fyrirtækið hefur verið í stöðugum vexti, meðal annars með kaupum á öðrum félögum, og er fjárfesting IS Haf sögð vera liður í frekari innri og ytri vaxtaráformum KAPP á komandi árum.

„Forskot í framþróun kælibúnaðar fyrir sjávarútveginn, öflug uppbygging stofnenda KAPP og veruleg vaxtartækifæri er grundvöllur fjárfestingar IS Haf. Sú þekking, reynsla og sérhæfing sem býr í mannauði KAPP er framúrskarandi og mun aðkoma sjóðsins styðja við metnaðarfulla vegferð í vexti félagsins í haftengdri tækni bæði innanlands sem utan.“ segir Kristrún Auður Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins, en hann er í rekstri Íslandssjóða.

Innherji greindi fyrst frá stofnun IS Haf í byrjun þessa árs en í krafti meðfjárfestinga hluthafa og annarra fjárfesta er áætlað að fjárfestingageta sjóðsins verði á bilinu 30 til 50 milljarðar. Fjárfestingum hans verður dreift meðal fimm flokka innan haftengdrar starfsemi, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni.

Forskot í framþróun kælibúnaðar fyrir sjávarútveginn, öflug uppbygging stofnenda KAPP og veruleg vaxtartækifæri er grundvöllur fjárfestingar IS Haf.

Kaupverð á hlutnum í KAPP er ekki gefið upp en á árinu 2022 nam velta fyrirtækisins rúmlega 1.700 milljónum króna og jókst lítillega frá fyrra ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var tæplega 140 milljónir á síðasta ári og dróst saman um liðlega tíu prósent. Eigið fé KAPP stóð í 270 milljónum um síðustu áramót og var eiginfjárhlutfall félagsins um 40 prósent.

KAPP tók nýlega við rekstri félagsins Raf og hefur á síðustu árum stækkað ört með ytri vexti, meðal annars yfirtökum á fyrirtækjunum Optimar Ísland og Stáltech. Starfsmenn KAPP eru í dag tæplega 50 talsins.

Freyr Friðriksson, forstjóri KAPP, segir ánægjulegt fyrir eigendur og starfsfólk fyrirtækisins að sérhæfður sjóður eins og IS Haf sýni rekstri þess áhuga með slíkri fjárfestingu.

„Það gefur til kynna að sú vegferð sem við höfum verið á í okkar rekstri hafi verið rétt og sjóðurinn trúi á hana. Vöxtur KAPP hefur verið stöðugur og góður frá stofnun félagsins. Með því að fá inn öfluga fjárfesta með sterka tengingu við sjávarútveginn styrkir það enn frekar þá vegferð sem KAPP hefur verið á undanfarin ár og gefur okkur aukinn kraft til frekari sóknar og tækifæra.“

Þá segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur (ÚR), sem fer með fimmtungshlut í IS Haf-sjóðnum, KAPP hafa verið sporgönguaðila í nýtingu á umhverfisvænum kælimiðlum sem komi Íslendingum til góða nú í dag.

„Búið er að leysa tæknileg vandamál við útskiptingu eldri kælimiðla vegna umhverfissjónarmiða. Góð og öflug kæling er forsenda til að viðhalda ferskleika próteins hvort sem um er að ræða sjávarafurðir eða landbúnaðarafurðir. KAPP er því í lykilaðstöðu að gera það fyrir kælikerfi sem Marel gerði fyrir flæðilínur,“ að mati Runólfs.

Það er ánægjulegt fyrir okkur eigendur og starfsfólk KAPP að sjóður eins og IS Haf sýni rekstri félagsins áhuga með þessari fjárfestingu.

Fjárfesting IS Haf í KAPP er sem fyrr segir sú fyrsta sem sjóðurinn ræðst í frá því að hann var settur á fót í febrúar. Sjóðurinn mun fjárfesta að mestu í óskráðum félögum á Íslandi eða félögum sem hafa tengingu við Ísland. Fjárfestingartímabil hans er fjögur ár og heildarlíftími sjóðsins er níu til ellefu ár. Þá er áætlaður fjöldi fjárfestinga átta til fimmtán og hver fjárfesting verður að hámarki tuttugu prósent af heildarstærð sjóðsins en hann hefur sett sér það markmið að skila hluthöfum sínum tuttugu prósenta ársávöxtun (IRR).

Auk Útgerðarfélags Reykjavíkur fara lífeyrissjóðirnir Birta og LSR sömuleiðis með tuttugu prósenta hlut hvor um sig.

Útgerðafélag Reykjavíkur er með 20 prósenta hlut í sjóðnum á meðan eignarhlutur Brims er 7,6 prósent. Aðrir helstu hluthafar eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn með tæplega 15 prósent, Almenni lífeyrissjóðurinn með 10 prósenta hlut og þá fer Brim með tæplega átta prósenta hlut.


Tengdar fréttir

KAPP kaupir RAF

Fyrirtækið KAPP ehf. hefur fest kaup á öllu hlutafé í hátæknifyrirtækinu RAF ehf. Gengið var frá kaupunum á sjávarútvegssýningunni í Barcelona á Spáni í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×