Myndbandi af krökkunum á hjólinu var deilt á íbúahópi Vesturbæjar á Facebook í gærkvöldi. Sagðist íbúinn sem deildi myndbandinu ekki hafa trúað eigin augum. Krakkarnir hafi verið þrír á hjólinu en auk þess ekið hjólinu á fjölfarinni umferðargötu. Ekkert barnanna er með hjálm.
„Við sáum þetta strax,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp um myndbandið. Hún segir þarna um að ræða klárt brot á skilmálum Hopp um notkun hjólanna og ljóst að þetta sé hættulegt bæði fyrir krakkana og aðra.
„Ég vona að þetta fái umræðu og ýti undir að foreldrar og forráðamenn tali við börnin sín, kenni þeim og fræði þau um hvað má og hvað má ekki í umferðinni. Alveg eins og við kennum börnunum okkar að hjóla og umferðarreglur almennt eða erum með þau í æfingaakstri þá þarf að fara yfir öryggisatriði, kenna þeim almennt tillit og hvar hætturnar liggja.“