Erlent

Á­hrifa­menn í tækni­geiranum sam­mála um nauð­syn reglu­verks

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Elon Musk segir nær alla hafa rétt upp hönd þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir styddu regluverk um gervigreind.
Elon Musk segir nær alla hafa rétt upp hönd þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir styddu regluverk um gervigreind. Getty/Chesnot

Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX og eigandi samskiptamiðilsins X (áður Twitter), segir menn hafa verið á einu máli um mikilvægi regluverks um gervigreind þegar margir af helstu þungavigtarmönnum tæknigeirans funduðu með stjórnmálamönnum vestanhafs í miðvikudag.

Það var Chuck Schumer, leiðtogi meirihlutans í öldungadeild Bandaríkjaþings, sem boðaði til fundarins en á meðal viðstaddra voru Musk, Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, Sundar Pichai, yfirmaður Google, Bill Gates, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Microsoft, og Satya Nadella, núverandi forstjóri Microsoft.

Fundurinn var haldinn fyrir lokuðum tjöldum en Musk sagði í samtali við blaðamenn eftir fundinn að hann gerði ráð fyrir að regluverk  myndi líta dagsins ljós. Ómögulegt væri að segja hvenær eða hvernig framsetningin yrði.

Musk sagði á fundinum að hann vildi „dómara“ yfir gervigreindariðnaðinum og Zuckerberg sagði að þingið þyrfti að koma að málum, bæði til að styðja við þróun en einnig sem eftirlitsaðili.

Hann sagði best að fyrirtækin í Bandaríkjunum sem ynnu að gervigreind stigu fram og sýndu frumkvæði að því að setja reglur og viðmið í samvinnu við stjórnvöld. 

Mike Rounds, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, sagði þingið engan vegið í stakk búið til að setja reglur um gervigreind; það myndi taka tíma. Þá sagði Demókratinn Cory Booker að viðstaddir hefðu verið sammála um eftirlitshlutverk stjórnvalda en að reglugerðasmíðarnar yrðu vandasamar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×