Willum var í byrjunarliði Go Ahead Eagles og átti viðburðarríkan fyrri hálfleik. Hann hélt að hann hefði komið gestunum í forystu á 41. mínútu leiksins, en eftir skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna rangstöðu, áður en hann nældi sér í gult spjald á lokamínútu hálfleiksins.
Gestirnir komu sér svo í vandræði strax í upphafi síðari hálfleiks þegar Jamal Amofa nældi sér í sitt annað gula spjald á 47. mínútu og þar með rautt. Willum og félagar þurftu því að leika allan seinni hálfleikinn manni færri.
Heimamenn nýttu sér liðsmuninn og tóku forystuna fimm mínútum síðar, en Norðmaðurinn Oliver Edvardsen jafnaði metin fyrir gestina tuttugu mínútum fyrir leiksloka og þar við sat.
Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og Willum og félagar sitja í sjöunda sæti deildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki, jafn mörg og Zwolle sem situr í áttunda sæti og hefur leikið einum leik meira.