Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra. Þar segir að talsverð eða mikil rigning sé í kortunum.
„Hætta er á auknu afrennsi og vatnavöxtum í ám og lækjum sem og líkur á flóðum og skriðuföllum, sem geta raskað samgöngum. Aukið álag getur orðið á fráveitukerfi og er fólk hvatt til að sýna aðgát og huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Frá klukkan 18:00 verður farið á hættustig Almannavarna og verður Samhæfingarstöð Almannavarna virkjuð samhliða því. Rétt fyrir hádegi var litakóði vegna úrkomuákefðar ferður úr gulu og upp í appelsínugult á Austfjörðum þar sem ákefðin er mest.
Sjá frétt á heimasíðu Veðurstofu Íslands.
Sjá ítarlegar upplýsingar um viðvaranir á vefsíðu Veðurstofu Íslands,“ segir í tilkynningunni.
Nánast samfelldri úrhellisrigningu er spáð fyrir austan næstu tvo sólarhringana. Ráðgert er að mesta úrkoman falli til fjalla og valdi vatnavöxtum í farvegum en við það aukast líkur á aurskriðum. Ester Hlíðar Jensen, ofanflóðasérfræðingur, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að enn hefði ekki verið gripið til rýminga fyrir austan.
„Almannavarnir munu taka ákvarðanir um hvaða næsta skref er og það verður fundað með þeim í dag og þau munu stýra aðgerðum ef einhver ástæða er til.“
Eru miklar líkur á aurskriðum?
„Eins og staðan er núna, með þessa miklu ákefð og í rauninni í þetta langan tíma - þetta er í rauninni mikil ákefð í tvo sólarhringa alveg samfellt - þá sjáum við fyrir okkur að vatnavextir í farvegum geti orðið það miklir að það verði rof og valdið skriðum.“
Almennt í vatnsveðri sem þessu er brýnt að hreinsa frá niðurföllum til að minna líkur á vatnstjóni.