Erlent

Fylgdi Google Maps fram af ónýtri brú og lést

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn fylgdi Google Maps út í læk.
Maðurinn fylgdi Google Maps út í læk. Patrick Sison/AP

Fjölskylda manns sem lést eftir að hafa ekið fram af brú, sem hafði hrunið níu árum áður, hefur stefnt tæknirisanum Google. Hún sakar fyrirtækið um að hafa ekki uppfært gervihnattakort sitt með þeim afleiðingum að maðurinn lést.

Philip Paxson lést í september í fyrra þegar hann drukknaði í læk í Hickory í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hann var á leið heim úr níu ára afmæli dóttur sinnar. Eiginkona hans hafði ekið tveimur dætrum þeirra heim tveimur klukkustundum fyrr, en hann hafði orðið eftir til þess að taka til eftir veisluna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins um málið.

„Verandi ókunnugur staðháttum treysti hann á Google Maps og bjóst við því að það myndi leiðbeina honum heim til eiginkonu sinnar og dætra. Á meðan hann ók varlega í myrkri og rigningu fylgdi hann útrunnum leiðbeiningum Google að því sem fjölskylda hans veit núna að er kallað Brúin til einskis. Hann hrundi ofan í Snow creek, þar sem hann drukknaði,“ segir í yfirlýsingu lögmanna mannsins, þar sem tilkynnt er um stefnu á hendur Google.

Í frétt Charlotte Observer um málið segir að öllu jöfnu séu hindranir fyrir brúnni en að skemmdarvargar hafi fjarlægt þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×