Lífið

Koma alla leið til Ís­lands til að hittast í fyrsta sinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Eldar Ástþórsson er vörumerkjastjóri CCP.
Eldar Ástþórsson er vörumerkjastjóri CCP. Stöð 2

Tuttugu ár eru liðin síðan íslenski tölvuleikurinn Eve Online var gefinn út. Þessum áfanga er fagnað í Eve Fanfest hátíðinni sem fer fram í sextánda sinn þessa helgi. Í ár er uppselt á hátíðina, rúmlega tvö þúsund manns, og koma flestir að utan. 

Eldar Ástþórsson vörumerkjastjóri CCP segir dæmi um að ráðstefnugestir hafi flogið hingað frá Tansaníu og Katar og þá komi einnig margir frá stærstu markaðssvæðunum; Bandaríkjunum og Bretlandi. 

„Fólk er að koma hingað aðallega til að hitta hvert annað. Þetta eru kannski óvinir í leiknum sjálfum en svo koma þau hingað, fallast í faðma og skemmta sér. Margir hafa kannski hist margoft en aldrei í raunheimum. Og koma þá alla leið til Íslands til að hittast þá í „alvörunni.“´

Á ráðstefnunni eru til dæmis fyrirlestrar og pallborðsumræður um efnahagsmál og stríð, en þá er átt við heimsmálin inni í Eve-tölvuleikjaheiminum sjálfum.

Hvað fær þessa spilara til að koma til Íslands?

„Það er fyrst og fremst vináttan og tengingin sem verður til staðar í leiknum, sem að keyrir þennan áhuga áfram – að komast og hittast í raunheimum. Það myndast alveg gífurlega sterk sambönd í gegnum það að spila leikinn og fólk vill fá að hittast í persónu og deila sögum, deila sinni sögu úr leiknum og fá að heyra sögurnar frá hinum líka. Og svo líka bara að plotta hvað er næsta stríð og hvernig tökum við yfir heiminn í leiknum. Það er líka plottað hér,“ segir Eyrún Jónsdóttir forstöðumaður leikjaútgáfu CCP.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×