Lífið

Skrímslið í bláa húsinu sem allir vissu af en enginn talaði um

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Eva segist hafa frelsast þegar afi hennar lést í byrjun þessa árs. Hann hafi haldið henni í heljargreipum.
Eva segist hafa frelsast þegar afi hennar lést í byrjun þessa árs. Hann hafi haldið henni í heljargreipum. Vísir/Vilhelm

Við Túngötu 21 í Vestmanneyjum stendur lítið einbýlishús. Evu Ólafsdóttur stendur stuggur af húsinu og hún er ekki ein um það. Húsið vekur upp vondar minningar.

Eva var sjö ára gömul þegar föðurafi hennar braut á henni kynferðislega, kvöld eitt þegar hún var í pössun heima hjá honum í bláa húsinu. Framburður Evu var tekinn trúanlegur.

En þó svo að hugtökin sifjaspell og kynferðisleg misnotkun hafi vissulega verið komin upp á yfirborðið á fyrri hluta tíunda áratugarins er tæplega hægt að segja að umræðan hafi verið komin á þann stað sem hún er í dag.

Upplifun Evu er sú að tíðarandinn í samfélaginu hafi ráðið því að miklu leyti að brot afa hennar gegn henni var þaggað niður á sínum tíma. Afi hennar var aldrei sóttur til saka fyrir brotið. 

Bæjarlistamaður og „Túngötuperrinn“

Næstu sextán árin var afi hennar áberandi í bæjar- og listalífinu í Vestmanneyjum og kom að margvíslegum atburðum í bænum. Hann var þekktur myndlistarmaður og var eitt árið kosinn Bæjarlistarmaður í Eyjum.

En undir niðri var ekki allt með felldu.

Fyrrverandi og núverandi íbúar í Vestmanneyjum sem rætt var við í tengslum við vinnslu greinarinnar kannast allir við „Túngötuperrann“, „Blágómuna,“ og „Kallinn í bláa húsinu.“

Viðmælendur nefndu dæmi um kynferðisbrot af hálfu afa Evu sem ná aftur til sjöunda áratugs seinustu aldar. Nokkrir sögðust hafa brýnt fyrir börnum sínum að koma ekki nálægt „bláa húsinu á Túngötunni“, vitandi hver ætti heima þar.

„Það er kominn tími á að þessi mál komist upp á yfirborðið. Þessi kall má rotna í helvíti fyrir mér,“ sagði einn viðmælandi, karlmaður á fimmtugsaldri sem búsettur hefur verið í Vestmanneyjum alla tíð. Einn fjölmargra sem hafa sitt að segja um málið en er ekki tilbúinn að stíga fram undir nafni.

Fyrsta kæran árið 2009

Vorið 2009 breyttist allt. Afi Evu var í fyrsta sinn kærður til lögreglu fyrir kynferðisbrot. Hann var sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn fimm ára stúlku í bænum. Í kjölfarið steig Eva fram og kærði afa sinn fyrir að hafa brotið á sér á sínum tíma. Hana óraði ekki fyrir að alls ættu átján aðrar konur úr Vestmannaeyjum eftir að gera það sama.

Brotin höfðu flest legið í þagnargildi árum saman, og reyndust á endanum öll vera fyrnd. Afi Evu var aldrei sakfelldur. Hann lést í janúar á þessu ári, og var jarðaður í kyrrþey.

„Mér finnst eins og ég hafi frelsast eftir að afi dó. Það var ekki fyrr en hann var dáinn að ég náði mér á strik andlega. Þegar hann dó þá dó þessi vanlíðan sem ég hafði verið að glíma við, mér finnst eins og lífið mitt hafi eiginlega bara byrjað upp á nýtt,“ segir Eva.

Voru hvött til að kæra ekki

Eva ólst upp í Vesturbænum.

„Mamma og pabbi voru rosalega ung þegar þau eignuðust mig. Mamma var nýorðin 19 ára og pabbi var 22 ára. Þau kynntust á Þjóðhátíð en þau voru aldrei par. Ég var bara nokkurra mánaða gömul þegar mamma kynntist fósturpabba mínum og hann kom inn í líf mitt. Pabbi minn bjó alltaf í Vestmannaeyjum með konunni sinni og þau eignuðust síðan yngri bræður mína tvo,“ segir Eva.

Eva var að sögn móður sinnar rólegt barn en eftir að misnotkunin komst upp fór hún að sýna merki um gífurlegan kvíða.Aðsend

Hún á óljósar minningar frá fyrstu æviárunum. Hún minnist þess að hafa reglulega heimsótt föðurfjölskylduna í Vestmannaeyjum.

Eitt kvöldið, árið 1993, var Eva í pössun heima hjá afa sínum og ömmu, í bláa húsinu á Túngötunni. Hún var ein með með afa sínum. Hann hafði sjálfur beðið um að fá hana til að gista.

„Ég man hvar þetta var, ég man hvar allt var, hvað var í sjónvarpinu og hvað var á borðinu fyrir framan okkur. Og svo hvað hann gerði.“

Hún á erfitt með að fara út í smáatriði. Brotið lýsti sér með svipuðum hætti og hjá hinum konunum sem síðar meir sökuðu afa hennar um kynferðislega misnotkun: óviðeigandi snerting og kynferðislegir tilburðir.

„Mamma segir að ég hafi alltaf verið frekar rólegt barn svona frá tveggja ára aldri að minnsta kosti. Söng allan daginn fyrstu árin og byrjaði í raun að syngja löngu áður en ég fór að tala almennilega. Eftir að þetta gerðist fór ég að sýna mikil einkenni kvíða og kvartaði til dæmis oft yfir flökurleika, sérstaklega á kvöldin.“

Nokkuð var liðið frá atvikinu þegar Eva sagði eldri frænku sinni frá því sem afi hennar hafði gert. Frænka hennar fór beint með það til móður Evu og í kjölfarið fór skrítin atburðarás af stað. Afi Evu neitaði öllu.

„Ég man lítið eftir þessu sjálf en samkvæmt mömmu fór hún með mig á Stígamót um leið og ég sagði henni frá þessu. 

Eva á óljósar minningar frá fyrstu æviárunum.Aðsend

Við fórum þangað að minnsta kosti tvisvar og ég var beðin um að teikna mynd og teiknaði víst mynd af stelpu og setti svona svartan boga í kringum hana. Þau ræddu í raun ekki atvikið sjálft við mig heldur var meira verið að reyna að styðja mig og fá mig til að tjá mig um hvernig mér liði. Eitthvað eftir það var farið með mig til barnasálfræðings sem fékk mig til að segja frá atburðinum og hann tók upp frásögnina svo hægt væri að nota ef tekin yrði ákvörðun um að kæra. En í raun var mamma alls staðar hvött til að kæra ekki af því að það myndi engu skila. Á þessum tíma hafði heldur enginn verið ákærður fyrir svona. Þetta þótti mjög þungt og erfitt fyrir barn að ganga í gegnum. Einhvern veginn lagði hún ekki í að fara og kæra, því miður,“ segir Eva.

Fimleikarnir björguðu

Eva segir að eftir að misnotkunin kom upp hafi hún dvalið um tíma hjá fjölskyldu eiginkonu föður síns í Grindavík en eftir það hafi lífið að mestu leyti farið í sama farið.

Upplifun hennar er sú að málinu hafi síðan verið sópað undir teppi. Hún hélt áfram að fara til Vestmannaeyja að einhverjum tíma liðnum - og hélt þá áfram að umgangast afa sinn eins og ekkert hefði í skorist. Amma hennar og afi héldu reglulega fjölmenn kjötsúpuboð heima á Túngötunni þar sem fjölskyldan og aðrir úr bænum komu saman, hlógu og skemmtu sér.

„Það var bara ekki minnst á þetta.“

Eva segir að hún muni aldrei geta skilið viðbrögð fjölskyldu sinnar. Hún gerir sér þó grein fyrir að líklega hafi allir verið að gera sitt besta á sínum tíma miðað við aðstæður.

„Pabbi hefur alltaf staðið með mér og trúað mér. En hann hefur aldrei viljað ræða þetta. Hann vill ekki fara þangað. Og ég skil það að vissu leyti, þetta eru jú foreldrar hans og auðvitað er þetta alveg svakalega erfitt fyrir hann líka. En ég á alltaf erfitt með sætta mig við hvernig það var litið fram hjá þessu, hvernig lífið fékk bara að halda áfram sinn vanagang. Ég var tekin trúanlega, en samt ekki nógu mikið.“

Eva æfði fimleika sem barn með KR og segir það hafa skipt sköpum.

„Fimleikarnir voru líf mitt. Það var mín leið til að fá útrás og frelsi. Já þeir voru líf mitt. Ég komst snemma í meistaraflokk og þótti öflug. En svo slasaðist ég illa og þurfti í aðgerð á olnboga strax eftir slysið og þurfti svo að hætta í fimleikum. Þá fann ég það greinilega hvað fimleikarnir höfðu breytt öllu fyrir mig. Þegar ég hætti blossaði upp í mér svakalegur kvíði og vanlíðan sem varð svo bara meiri og meiri og ég var greind með kvíðaröskun þegar ég var í áttunda bekk.“

Í gegnum tíðina hefur Eva reglulega fengið að heyra útundan sér sögur sem tengjast kynferðisbrotum afa hennar í Vestmannaeyjum.Vísir/Vilhelm

Eva segir að næstu árin hafi hún reglulega heyrt út undan sér sögur af afa sínum.

„Ég lenti oft í því að hitta fólk úr Eyjum hér og þar, til dæmis á djamminu, og það vissu auðvitað allir hver ég var, að ég væri afabarnið hans. Og í gegnum tíðina heyrði ég reglulega sögur frá hinum og þessum sem áttu að hafa lent í honum.“

Tuttugu önnur fórnarlömb

Árið 2009 lögðu hjón í Vestmannaeyjum fram kæru á hendur afa Evu. Hann var sakaður um kynferðisbrot gagnvart fimm ára gamalli stúlku; hafði berað á sér kynfærin og látið hana afklæðast að hluta og káfað á líkama hennar, þar með talið á kynfærum hennar og rassi utan klæða.

Í málsgögnum kemur fram að stúlkan hafi tjáð móður sinni að hún hafi séð typpi á kallinum í [...] húsinu og hafi móðirin strax gert sér grein fyrir hvern um hafi verið að ræða. Kvaðst hún vita til þess að dóttir hennar hefði nokkrum sinnum komið á heimili mannsins þrátt fyrir að henni hafi verið bannað það.

Afi Evu neitaði sök í málinu. Hann sagði stúlkuna aldrei hafa farið inn í húsið heldur hefðu þau einungis átt orðastað utan þess.

„Ég man að ég var í herberginu mínu, heima á Fálkagötunni, þegar frænka mín hringdi í mig og sagði mér að það hefði fimm ára stelpa lent í honum,“ segir Eva.

„Það kom eitthvað yfir mig, það blossaði upp í mér svakaleg reiði. Þennan sama dag fór ég til Eyja, ein, og fór beint upp á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur honum. Ég vissi það í raun allan tímann að mitt mál væri fyrnt. En ég hugsaði þetta þannig að hugsanlega gæti ég hjálpað einhverjum öðrum ef ég myndi kæra líka. Auðvitað var þetta rosalegt sjokk, ekki síst þegar það komu síðan upp fleiri og fleiri fórnarlömb.“

Þann 26.júní 2009 birtist frétt í DV undir fyrirsögninni: „Afi grunaður um að misnota börn.“ Greint var frá því karlmaður á áttræðisaldri í Vestmannaeyjum væri grunaður um kynferðisbrot gegn börnum.

„Maður á áttræðisaldri var handtekinn og færður til yfirheyrslu af lögreglunni í Vestmannaeyjum fyrir helgina, grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn nokkrum stúlkubörnum. Fimm ára stúlka greindi nýverið frá því að maðurinn hefði misnotað hana kynferðislega og í kjölfarið hófst rannsókn á málinu. Eftir það hafa fleiri stúlkur og konur stigið fram og sagt manninn hafa misnotað þær sem börn. Þar á meðal er barnabarn mannsins, ung kona sem nú er komin yfir tvítugt.“

Blaðamaður DV ræddi við afa Evu við gerð fréttarinnar og bar undir hann ásakanirnar. Hann vildi ekki tjá sig og gaf ekki upp um hvort hann játaði eða neitaði ásökununum.

„Ég er bara niðurbrotinn. Ég vil ekkert segja um þetta. Ég sé engan tilgang með því,“ sagði hann.

Það voru blendnar tilfinningar sem vöknuðu hjá Evu þegar hún heimsótti Vestmannaeyjar á dögunum og stóð fyrir framan bláa húsið á Túngötunni.Vísir/Vilhelm

Heiðar Hinriksson, lögreglumaður í Vestmannaeyjum fór fyrir rannsókninni, en sagðist á þeim tíma ekki geta gefið upp hversu margar stúlkur hefðu stigið fram. Hann gat heldur ekki sagt til um grófleika þeirra brota sem afi Evu var sakaður um, ekki fyrr en öll kurl væru komin til grafar. 

„Við höfum fengið fullt af nöfnum en erum að kanna framhaldið,“ sagði Heiðar á þeim tíma.

Tæpu ári síðar, í september árið 2010 greindu Eyjafréttir frá því að nítján konur hefðu lagt fram kærur gegn afa Evu, eftir að rannsókn hófst á fyrrnefndu kynferðisbroti hans gegn fimm ára stúlku.

„Kærurnar nítján sem bárust á manninn eftir að rannsókn málsins fór af stað voru mjög líkar og lýstu mjög líkum aðstæðum og hegðun hans gagnvart stúlkubörnum. Ein þeirra kvenna sem lögðu fram kæru var sonardóttir mannnsins, en það mál reyndist nýlega fyrnt.“

Mál kvennanna nítján, þar á meðal Evu, reyndust öll vera fyrnd.

Var greindur með barnahneigð af sálfræðingi

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands er vitnað í mat sálfræðings á afa Evu, en sálfræðingnum var meðal annars falið að meta hættuna á frekari kynferðisbrotum af hans hálfu. Í skýrslunni kveðst sálfræðingurinn hafa greint afa Evu með barnahneigð og tekur fram að „allt virðist benda til þess að hann hafi kynferðislegan áhuga á stúlkubörnum.“

Fram kemur að sálfræðingurinn hafi undir höndum, auk annarra málsgagna, skýrslur frá um tuttugu konum sem hafi borið á hann að hafa nokkrum áratugum áður brotið kynferðislega gegn þeim. Í skýrslunni kemur fram að „ákærði kannist við atvik frá árinu 1993 sem varði sonardóttur hans sem þá hafi verið fimm ára gömul.“

„Í skýrslunni segir um þroska ákærða að hann sé vel greindur, með sérstaka hæfileika á sjónræna sviðinu. Langtímaminni hans sé gott en vinnsluminni slakt en slaka mælingu á því sviði megi rekja til álags og kvíða próftaka. Engin merki séu um taugasálfræðileg vandamál. Hann neiti því að hafa kynferðislegan áhuga á stúlkubörnum, eingöngu fullorðnum konum. Þó geti verið að hann hafi áhuga á að láta börn sjá sig nakinn þó hann játi það ekki beint.

Telur sálfræðingurinn því mjög líklegt og sérstaklega í ljósi fjölda mála í gegnum árin að ákærði hafi einmitt áhuga á stúlkubörnum. Segir hann í ljósi gagna að meginþemað virðist vera að hann beri sig fyrir stúlkubörnum, en einnig virðist hann hafa áhuga á margvíslegum hlutum varðandi stúlkubörn. Séu kærur mjög líkar og lýsi mjög líkum aðstæðum og hegðun hans gagnvart stúlkubörnum.“

Á öðrum stað segir að sálfræðingurinn hafi staðfest skýrsluna þegar hann bar vitni fyrir dómi.

„Hann kvaðst hafa greint ákærða með barnahneigð sérstaklega í ljósi þeirra gagna sem hann hafði undir höndum, en um hafi verið að ræða ítrekaðar kærur og virtist honum allt benda til að hann hafi kynferðislegan áhuga á stúlkubörnum.“

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði afa Evu í máli litlu stúlkunnar. Í niðurstöðu héraðsdóms kom fram að meðferð málsins fram að skýrslugjöf stúlkunnar fyrir dómi hefði verið til þess fallin að „rýra sönnunargildi þess vitnisburðar og varð því ekki byggt á honum við sönnunarmat í málinu.“

Þá kemur fram í niðurstöðu héraðsdóms:

„Ákærði hefur neitað sök og þar sem engum öðrum sönnunargögnum er til að dreifa sem sýna fram á sekt hans að þessu leyti verður ekki hjá því komist að sýkna hann af ákæru í máli þessu.“

Ríkissaksóknari áfrýjaði síðar dómi Héraðsdóms Suðurlands. Í mars 2011 lá niðurstaðan fyrir. Hæstiréttur staðfesti sýknudóminn.

Allir fóru hver í sína áttina

Eva segir föðurfjölskyldu sína hafa splundrast eftir að þetta mál kom upp. Hún segir afa sinn og ömmu hafa einangrast algjörlega í kjölfarið. Vikulegu kjötsúpuboðin á Túngötunni heyrðu sögunni til.

„Það fóru eiginlega allir hver í sína átt eftir þetta. Pabbi hætti að tala við afa og ömmu eftir þetta. Það voru engin samskipti þar á milli. Og óneitanlega þá fannst mér það vera mér að kenna, af því að ég ákvað að kæra, og ég sá eftir því, þó ég geri það ekki lengur í dag.“

Afi Evu hafði áður verið virkur í bæjarlífinu í Vestmannaeyjum. Það breyttist eftir að málið kom upp.

„Þau drógu sig bara algjörlega í hlé og héldu sig heima með dregið fyrir gluggana. Þau voru alltaf bara tvö ein, voru búin að missa alla í kringum sig.“

Amma Evu lést nokkru áður en afi hennar dó.

„Ég hefði viljað sjá afa deyja á undan. Þá hefði amma hugsanlega fengið fjölskylduna sína til baka,“ segir Eva.

Veikindi stigmögnuðust í tíu ár

Heilsu Evu hrakaði.

Andleg heilsa mín varð í raun bara verri með hverju árinu frá 2010. Mér leið ömurlega eftir að sárið var rifið upp og ég fór að hugsa mikið um þetta allt aftur. Ég hafði náð að eiga nokkuð eðlilegt líf, var í fimleikum og stundaði einhverja vinnu á unglingsárunum; var í unglingavinnunni og vann á elliheimilinu Grund í mörg ár. En ég leitaði mér í raun aldrei hjálpar varðandi þetta áfall og var alltaf bara að reyna að gleyma þessu og halda áfram með líf mitt,“ segir Eva.

„Ég fór inn á geðdeild fyrst þetta ár og var mjög veik næstu árin á eftir. Frá árinu 2010 til lok árs 2022 stigmögnuðust veikindin og ég var bara mjög veik. Allt þar til hann dó en þá er eins og eitthvað hafi gerst innra með mér. Eitthvað sem ég get ekki alveg útskýrt.“

Eva við leiði afa síns og ömmu í Vestmannaeyjum. Afi hennar var jarðaður í kyrrþey.Vísir/Vilhelm

Afi Evu lést í janúar á þessu ári.

„Ég man eftir því að hafa verið úti að borða þegar ég fékk fréttirnar. Ég í raun fann ekki fyrir neinu til að byrja með. Þegar dagarnir liðu þá fór ég að finna fyrir smá létti. Þegar leið á fór ég svo loks að geta unnið aðeins meira úr þessum upplýsingum og á endanum finnst mér ég hafa séð lífið í rauninni í öðru ljósi , það er erfitt að útskýra það. Hann hafði haft mig í bandi, í raun þar til hann dó. Ég hafði alls ekki áttað mig í raun á því fyrr en hann deyr. Hversu mikil áhrif hann hefur í raun haft á allt mitt líf. Ég get í raun ekki svarað fyrir það hvernig viðbrögð fjölskyldu minnar var.“

„Fékk alltaf hnút í magann“

Þann 8. janúar síðastliðinn birti Fríða Hrönn Halldórsdóttir, íbúi í Vestmannaeyjum, eftirfarandi færslu á Facebook síðu sinni.

„Dagurinn er upprunnin!

Nú vildi ég að ég ætti flaggstöng.

Ég hefði flaggað í heila í dag.“

Fríða Hrönn er ein af konunum nítján sem á sínum tíma kærðu afa Evu til lögreglu fyrir kynferðisbrot sem reyndust fyrnd.

Á fjórða tug íbúa í Vestmanneyjum rituðu athugasemdir undir færslu Fríðu.

„Loksins get ég labbað Túngötuna og leyft dætrum mínum að labba hana áhyggjulaus . Ég hef verið með verk í maganum síðan ég var 12 ára og lenti í karlinum í bláa húsinu.“

„Ég er 49 ára og alltaf fékk ég hnút í magann þegar ég sá hann. Að þurfa aldrei aftur að mæta kallinum í bláa húsinu framar er mikill léttir.“

„Segðu... Hér er mikil gleði og fögnuður.“

„Ég mun aldrei skammast mín fyrir það að fagna þessum degi.“

„Já þetta er mörgum mikill léttir, það verður bara að segjast.“

„Samkvæmt minni trú þá var hvorki ljós né kærleikur sem tók á móti honum í dag.“

„Ég er svo feginn að þessi dagur er uppruninn“

„Já, nú væri við hæfi að flagga í heila og fagna! Svartasti blettur eyjanna loksins farinn. Ég samgleðst ykkur öllum sem eruð þolendur og okkur hinum sem lifðum í ótta af hans völdum. Okkur sem eiga dætur sem stóð ógn af þessu skrímsli.“

„Farið hefur fé betra" á vel við í dag. Og stelpur, ekki fara varlega, opnið ykkur og látið í ykkur heyra, þannig stoppum við ógeðslega menn.“

„Við sögðum frá, en enginn vildi trúa okkur.“

„Ég verð nú bara samt að segja í götunni bjuggu lögreglumenn. Af hverju héldu þeir í þessa hefð án aðgerða? Af hverju var manninum hlíft á meðan að allir voru á taugum og hræddust húsið?“

Þessi viðbrögð fóru ekki fram hjá Evu og ýmislegt varð skýrara.

„Ég vissi alltaf að hann hefði misnotað fleiri og vissi af kærurum á sínum tíma en þarna sá ég í rauninni svart á hvítu hversu margir vissu þetta og hversu margir hefðu lent í honum,“ segir Eva.

„Mér leið einhvern veginn loksins eins og ég væri ekki ein. Eins og ég fengi loks smá staðfestingu á því að hafa lent í þessu og að öðrum gæti liðið eins og mér vegna sama manns.“

Lifir í núinu

Hún segir reynsluna úr æsku hafa heft sig á margvíslegan hátt í gegnum lífið, ekki síst í samskiptum við karlmenn. Í dag á hún kærasta og líður vel.

„Mér finnst ég loksins vera einhvers virði. Mér finnst eins og ég sjái allt í nýju ljósi. Ég á stundum erfitt með trúa því hvað ég er komin á góðan stað. Frá því að afi dó þá loksins er ég að komast á gott skrið í lífinu. Mér finnst ég loksins vera að ná tökum á mínum veikindum. Allt það sem fagfólk hefur kennt mér síðustu ár er að síast inn og sjálfsvinnan er að skila sér. Fyrir ári síðan hafði ég enga trú á að ég myndi ná einhverjum bata. Í dag er staðan önnur. Ég er farin að hafa trú á sjálfri mér, brýt mig ekki niður heldur er dugleg að hrósa sjálfri mér á jákvæðan hátt.“

Undanfarin misseri hefur Eva sótt þjónustu hjá samfélagsgeðteymi og utankjarnaþjónustu. Hún er þakklát fyrir þann stuðning.

„Þau hafa hjálpað mér að komast á þann stað sem ég er á í dag. Ég átta mig á því að auðvitað hef ég unnið mestu vinnuna sjálf en stuðningurinn frá þeim er ómetanlegur. Ég lifi eins og er bara í núinu og hef lært að taka bara einn dag í einu,“ segir Eva.

Það virðist vera að birta til.

„Ég er öryrki eins og er en er loks komin aðeins af stað aftur út á vinnumarkaðinn og á í dag yndislegan kærasta sem hefur verið mér mikill stuðningur. Þetta er í fyrsta skipti sem ég næ að stofna til sambands við aðra manneskju og þetta er allt nýtt fyrir mér. Ég hafði aldrei verið með neinum áður en afi dó enda sjálfstraust mitt og sjálfsálit mikið brotið og ég trúði því ekki að neinn myndi vilja mig og átti bara erfitt með svona náin samskipti almennt.“

Eva tekur skýrt fram að hún sækist ekki eftir vorkunn, heldur vill hún vekja aðra til umhugsunar um kynferðisofbeldi og þöggun.Vísir/Vilhelm

Hvað hefðirðu viljað sjá gert öðruvísi á sínum tíma? Hefði mátt taka öðruvísi á þínu máli- og hinna?

„Næstum allt mitt líf var þessu máli í raun „sópað undir teppið“. Þetta var mál sem ekki átti að tala um og skömmin var alltaf mikil hjá mér. Mér finnst ég ekki hafa fengið nógu gott tækifæri til að ræða þetta almennilega fyrr en umræðan opnast og ég var orðin fullorðin. Tíðarandinn og þöggunin í svona málum spila auðvitað stórt hlutverk í þessu öllu saman. Ég hefði viljað að ég og foreldrar mínir hefðum fengið stuðning og hvatningu til að kæra eða stuðning til að ég gæti unnið í mér sem barn og unglingur. Ég á skilið þá viðurkenningu að þetta gerðist, við öll sem lentum í honum eigum skilið þá viðurkenningu. Hann viðurkenndi þetta aldrei og var aldrei sakfelldur fyrir dómi."

Hvers vegna viltu stíga fram og greina frá reynslu þinni? Hvað viltu að fólk viti?

„Það að ég sé loks eftir öll þessi ár að opna mig og ræða opinberlega um þetta mál er alls ekki til að vera að fá einhverja vorkunn vegna þess sem kom fyrir eða athygli heldur líður mér bara eins og það sé loksins kominn tími á það,“ segir Eva og hugsar sig um.

„Umfjallanir um svipuð mál, viðtöl við fórnarlömb sömu ofbeldisaðila eða jafnvel viðtöl við fórnarlömb sem lentu í svipuðum aðstæðum í allt öðru máli geta hjálpað manni mikið. Það ýtir gjarnan undir að fleiri stígi fram og tali og vonandi leiti sér aðstoðar. Þess vegna er ég að ræða þetta. Ég er búin að þegja nógu lengi um þetta og ef ég get gefið einni manneskju, sem hefur lent í svipuðum aðstæðum hugrekki til að opna sig um sína lífsreynslu og leita sér hjálpar þá er tilganginum með þessu viðtali náð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×