Erlent

Sjö ára börn í Rúss­landi læra her­kænsku

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sjálfur heimsótt skóla og talað um mikilvægi þess að verja landið.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sjálfur heimsótt skóla og talað um mikilvægi þess að verja landið. Getty/Contributor

Sjö ára börnum er kennd herkænska í skólum í Rússlandi. Rússlandsforseti kynnti nýjan skylduáfanga í skólum fyrr á árinu þar sem farið er yfir helstu atriði sem þarf að kunna í stríði. Krakkar á unglingastigi læra að beita vopnum.

Þar sem áður voru krakkar að leik má nú sjá ung börn í herbúningum læra að marsera undir stjórn kennara sinna. Menntamálaráðuneytið rússneska kynnti nýjar áherslur í aðalnámskrá fyrr á árinu en samkvæmt henni verður einblínt á að kenna börnum hertengda leiki og bjóða upp á heimsóknir háttsettra manna úr hernum. Þá yrði börnum á unglingastigi kennt að læra að beita skotvopnum undir leiðsögn sérfróðra. Námskráin er tilraunaverkefni að svo stöddu en stefnt er að því að innleiða hana að öllu leyti á næsta ári.

Áherslur í rússneska skólakerfinu hafa tekið ýmsum breytingum síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst. Til að mynda hefur kennslubókinni „Saga Rússlands,“ sem ætluð er grunnskólabörnum, verið breytt töluvert. Brúin yfir á Krímskaga prýðir nú kápu bókarinnar og kaflaheiti á borð við „sögufölsun“ og „úkraínskur nýnasismi“ hafa litið dagsins ljós. Í nýjum kafla er til dæmis fjallað um áætlanir Úkraínumanna um að komast yfir kjarnorkuvopn og að Vesturveldin vilji knésetja efnahag Rússlands.

CNN greinir frá því að kennarar sem hafa verið minna spenntir fyrir nýju áherslunum hafi verið reknir. Rússneska varnarmálaráðuneytið segir mikilvægt að kenna börnum að efla samheldni og styðja landið. Mikilvægt sé að undirbúa yngri kynslóðina undir herþjónustu.


Tengdar fréttir

Vill taka neit­un­ar­vald­ið af Rúss­um

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, kallaði eftir því í dag að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna yrði breytt á þann veg að hægt yrði að svipta ríki sem eiga fast sæti í ráðinu neitunarvaldi. Öryggisráðið og SÞ gætu ekkert gert vegna stríðsins þar sem árásaraðilinn, Rússland, væri með neitunarvald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×