Sport

Mál Valievu tekið fyrir í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kamila Valieva tekur sjálfu á ísnum.
Kamila Valieva tekur sjálfu á ísnum. getty/Maksim Konstantinov

Mál rússnesku skautakonunnar Kamilu Valievu verður tekið fyrir hjá Alþjóða íþróttadómstólnum (Cas) í dag.

Valieva var einn umtalaðasti keppandinn á Vetrarólympíuleikunum í Peking í fyrra. Hún hjálpaði Rússum að vinna liðakeppnina í listdansi á skautum en þeir voru sviptir verðlaunum eftir að upp komst að Valieva hefði fallið á lyfjaprófi í desember 2021. Hjartalyfið trimetazidine fannst í sýni hennar.

Þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófinu fékk Valieva að keppa í einstaklingskeppninni á Vetrarólympíuleikunum. Þar var hún augljóslega illa fyrir kölluð og endaði í 4. sæti þrátt fyrir að vera langsigurstranglegust.

Rússneska lyfjaeftirlitið (Rusada) taldi Valievu ekki hafa gert neitt rangt en Alþjóða lyfjaeftirlitið (Wada) hefur áfrýjað því. Wada og Alþjóða skautasambandið (Isu) fara fram á að Valieva verði dæmd í fjögurra ára bann.

Mál Valievu verður tekið fyrir hjá Cas í dag þar sem hún mun sitja fyrir svörum ásamt sérfræðingum og vitnum.

Valieva sneri aftur á ísinn í lok síðasta árs þegar hún keppti á rússneska meistaramótinu og endaði í 2. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×