Menning

Anne Carson hlýtur Vigdísarverðlaunin

Samúel Karl Ólason skrifar
Anne Carson.
Anne Carson.

Anne Carson, sérfræðingur í klassískum fræðum, skáld og þýðandi, vann Vigdísarverðlaunin þetta árið. Verðlaunin eru veitt árlega til einstaklinga sem hafa bortið blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningar og þýðingararfs.

Hún mun fá verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands þann 6. október.

Fyrri handhafar Vigdísarverðlaunanna eru Juergen Boos (2022), forstjóri Bókastefnunnar í Frankfurt, grænlenska ljóðskáldið og málvísindakonan Katti Frederiksen (2021), og færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen (2020).

Í tilkynningu segir að Carson sé fædd í Kanada og hún hafi lengst af starfað sem prófessor í klassískum fræðum og kennt grísku og klassískar grískar bókmenntir við háskóla vestan hafs, meðal annars McGill, Princeton og New York-háskóla. Hún er einnig þekkt ljóðskáld, prósahöfundur, esseyisti og þýðandi.

„Framlag Anne Carson á sviði tungumála og menningar hefur vakið óskipta athygli í fræðum og listum. Efni skáldverka hennar er á stundum samofið arfi klassískrar menningar og gefur jafnframt vísbendingu um djúpstætt samband hugvísinda og listsköpunar. Hún hefur þýtt sum af helstu verkum klassískra bókmennta á forngrísku og latínu, og í skáldverkum ferjað ægifagra sýn harmleikjaskálda á svið samtímamenningar. Hún sver sig þannig í ætt við heimsþekkta rithöfunda nútímans sem fanga samspil sköpunar og eyðingar í mannlegri tilvist og samfélagi með því að horfa til arfs klassískrar menningar,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að Carson sé Carson er handhafi styrkja frá meðal annars Guggenheim Foundation, MacArthur Foundation og American Academy í Berlin. Hún hafi verið fyrsta konan til að hljóta T. S. Eliot Prize bókmenntaverðlaunin og að henni hafa hlotnast ýmsar aðrar viðurkenningar, þar á meðal Griffin Poetry Prize. Með störfum sínum á sviði klassískra fræða, skáldskapar og þýðinga sé Anne Carson verðugur handhafi Vigdísarverðlaunanna 2023.

Í stjórn Vigdísarverðlauna frá 2022 sitja Rósa Signý Gísladóttir dósent í málvísindum (formaður stjórnar), tilnefnd af rektor Háskóla Íslands, Birna Bjarnadóttir rannsóknasérfræðingur í bókmenntum, tilefnd af Vigdísarstofnun, og Sigtryggur Magnason, íslenskufræðingur og aðstoðarmaður innviðaráðherra, tilnefndur af menningarmálaráðherra. Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, starfar með nefndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.