Fótbolti

Ólátabelgirnir í Ajax birta „aftökulista“ stjórnarfólks hjá félaginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blysum var ítrekað hent inn á Johan Cruijff leikvanginn þangað til á endanum að leikurinn var stöðvaður vegna óláta áhorfenda.
Blysum var ítrekað hent inn á Johan Cruijff leikvanginn þangað til á endanum að leikurinn var stöðvaður vegna óláta áhorfenda. Getty/Angelo Blankespoor

Í dag verður aftur reynt að klára leik Ajax og Feyenoord í hollensku deildinni en það þurfti að hætta leik um síðustu helgi vegna óláta áhorfenda.

Allt varð vitlaust á pöllunum eftir að Ajax lenti 3-0 undir á heimavelli á móti sínum erkifjendum. Dómarinn stöðvaði leikinn eftir 55 mínútur.

Stuðningsmenn Ajax höfðu þá ítrekað kastað blysum inn á völlinn og þeir reyndu líka að eyðileggja sem mest á leið sinni af Johan Cruijff leikvanginum.

Ofurstuðningsmannasveit Ajax, F-side, ætlar nefnilega að gera allt til að kalla fram breytingar á stjórn félagsins.

Ajax hefur byrjað tímabilið hræðilega en liðið er í fjórtánda sæti deildarinnar og aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

Leikurinn á að klárast í dag en þá verða síðustu 35 mínútur hans leiknar en engum áhorfendum verður þó hleypt inn á leikvanginn.

Ólátabelgirnir í Ajax láta það ekki stoppa sig og ætla að hittast fyrir utan leikvanginn klukkutíma fyrir leik.

F-side hafði heimtað að Sven Mislintat, yfirmanni knattspyrnumála hjá Ajax, yrði rekinn og þeim varð að ósk sinni eftir leikinn um helgina.

Sveitin vill aftur á móti að allri stjórn félagsins verði vikið úr starfi. Þeir birtu því „aftökulista“ á samfélagsmiðlum og hótuðu aðgerðum í tengslum við leikinn í dag.

Alls eru fimm manns á listanum fyrir utan Mislintat. Þau eru Pier Eringa, Georgette Schlick, Annette Mosman, Maurits Hendriks og Jan van Halst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×