Erlent

DeSantis og Christi­e gagn­rýndu Trump fyrir að vera fjarri góðu gamni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðrar kappræður Repúblikanaflokksins fyrir forvalið fóru fram í gærkvöldi.
Aðrar kappræður Repúblikanaflokksins fyrir forvalið fóru fram í gærkvöldi. Getty/Justin Sullivan

Sjö frambjóðendur í forvali Repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári mættust í kappræðum í gærkvöldi. Donald Trump var ekki þeirra á meðal og var gagnrýndur fyrir að taka ekki þátt.

Þetta eru aðrar kappræður frambjóðenda Repúblikanaflokksins en Trump tók ekki heldur þátt í þeim fyrstu.

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, var meðal þeirra sem vakti máls á fjarveru Trump og sagði hann fjarri góðu gamni. „Hann ætti að vera hér á þessu sviði í kvöld. Hann skuldar ykkur að verja frammistöðu sína,“ sagði ríkisstjórinn, sem hingað til hefur haldið aftur af sér þegar kemur að því að gagnrýna Trump.

Chris Christie, fyrrverandi ríkisstjóri New Jersey, sagði Trump óttast kjósendur. „Þú ert ekki hér vegna þess að þú ert hræddur við að mæta og verja framgöngu þína. Þú ert að koma þér hjá þessu,“ sagði Christie, sem var áður meðal helstu stuðningsmanna Trump en er nú meðal fremstu gagnrýnenda hans innan Repúblikanaflokksins.

DeSantis, sem þykir einna líklegastur til að eiga raunhæfan möguleika á því að skáka Trump í forvalinu, var spurður að því hvernig hann hygðist fara að því; hvað hann teldi sig þurfa að gera til að vinna upp forskotið sem Trump virðist hafa í skoðanakönnunum.

„Skoðanakannanir kjósa ekki forseta,“ svaraði DeSantis. „Kjósendur kjósa forseta. Og við ætlum að bera þetta undir fólkið í þessum ríkjum sem kjósa fyrst,“ sagði hann.

Þrátt fyrir að Trump eigi nú yfir höfði sér fjölda ákæra í fjórum sakamálum nýtur hann enn lang mests stuðnings af forsetaefnum Repúblikanaflokksins. Samkvæmt nýlegri könnun NBC News nýtur Trump stuðnings 59 prósent þeirra sem teljast líklegir til að kjósa í forvalinu.

Asa Hutchinson, fyrrverandi ríkisstjóri Arkansas, var ekki meðal þeirra sem tóku þátt í kappræðunum í gær þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði landstjórnar Repúblikanaflokksins um lágmarksfylgi í skoðanakönnunum.

Hann hyggst engu að síður halda áfram kosningabaráttu sinni, ekki síst til að berjast gegn Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×