Ný þjóðarópera og Íslenska óperan verða til umræðu í Pallborðinu á Vísi í dag. Hólmfríður Gísladóttir stjórnar þættinum, sem hefst klukkan 14, en gestir hennar verða Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri og Gissur Páll Gissurarson, óperusöngvari og staðgengill formanns Klassís.
Stjórnarhættir stjórnenda Íslensku óperunnar hafa sætt nokkurri gagnrýni undanfarin ár, eða allt frá því að Steinunn Birna var ráðinn óperustjóri árið 2015. Gagnrýnin snérist ekki um persónu Steinunnar Birnu heldur ráðningarferlið, meðal annars að enginn annar umsækjenda hefði verið boðaður í viðtal.
Meðal umsækjenda voru Kristján Jóhannsson, Gunnar Guðbjörnsson og Davíð Ólafsson en stjórn Óperunnar neitaði að veita upplýsingar um hverjir hefðu sótt um. Þá var aðkoma Capacent að ferlinu gagnrýnd.
Launamál Óperunnar hafa einnig verið í umræðunni en árið 2020 stefndi Þóra Einarsdóttir óperusöngkona stofnuninni vegna vangoldinna launa. Óperan var sýknuð í héraðsdómi en niðurstöðunni snúið í Landsrétti.
Árið 2021 sendi stjórn Klassís frá sér vantraustsyfirlýsingu á hendur stjórn Óperunnar og óperustjóra vegna stjórnarhátta. Í henni sagði meðal annars að aðkoma söngvara að stjórn hefði eitt sinn verið mikil en væri nú engin. Kvartað var yfir áhugaleysi stjórnar og skort á gagnsæi.
Þá má einnig nefna gagnrýni á uppsetninguna Madama Butterfly, þar sem Óperan var sökuð um menningarnám.
Menningarmálaráðherra hefur tekið ákvörðun um stofnun Þjóðaróperu og fátt sem virðist geta komið í veg fyrir að sjálfseignarstofnunin Íslenska óperan sé að syngja sitt síðasta. Engu að síður er enn deilt um Óperuna, bæði bak við tjöldin og frammi fyrir opnum tjöldum.
Um hvað snýst málið?
Pallborðið verður sýnt í beinni útsendingu hér á Vísi og á Stöð 2 Vísi.