Körfubolti

Holi­day á leið til Boston

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jrue Holiday er við það að ganga í raðir Boston Celtics. 
Jrue Holiday er við það að ganga í raðir Boston Celtics.  Stacy Revere/Getty Images

Jrue Holiday stoppaði stutt hjá Portland Trail Blazers en honum var skipt til félagsins þegar Damian Lillard fór til Milwaukee Bucks á dögunum. Nú hefur verið greint frá því að Holiday er á leið til Boston Celtics í öðrum stórum skiptum NBA-deildarinnar á aðeins örfáum dögum.

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar Lillard yfirgaf Trail Blazers og gekk í raðir Bucks. Skiptin gerðu Bucks strax hvað líklegast til að standa uppi sem meistari næsta vor. Á móti kom að Holiday, sem er talinn einn af betri varnarmönnum deildarinnar, fór til Portland.

Það virtist þó aldrei sem Holiday yrði áfram í Portland og það var svo raunin. Í kvöld greindi ESPN frá því að Holiday væri á leið til Boston Celtics. 

Í staðinn ganga þeir Robert Williams III og Malcolm Brogdon í raðir Portlans sem og félagið fær valrétt í 1. umferð nýliðavalsins á næsta ári og annan valrétt í 1. umferð nýliðavalsins 2029.

Philadelphia 76ers og Miami Heat voru einnig áhugasöm um að fá Holiday í sínar raðir en gátu ekki jafnað tilboð Portland.

Það styttist í að NBA-deildin fari af stað en líkt og á síðasta tímabili verður sýnt frá öllu sem þar gerist á rásum Stöðvar 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×