Innlent

Krefjast þess að serbneski herinn hörfi frá landamærum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Kósóvósk stjórnvöld segja mikla ógn stafa af viðveru serbneska hersins á landamærunum.
Kósóvósk stjórnvöld segja mikla ógn stafa af viðveru serbneska hersins á landamærunum. getty

Kósóvósk stjórnvöld hafa krafist þess serbneski herinn hörfi tafarlaust frá landamærum ríkjanna. Töluverð ólga hefur skapast milli ríkjanna á síðustu vikum.

Samskipti stjórnvalda hafa verið stirrð en Serbar neita að viðurkenna sjálfstæði Kósovó og hafa haldið tengslum við þjóðbrot Serba sem eru fjölmennir í norðurhluta Kósovó. 

Fjórir létust 24. september þegar hópur vopnaðra manna girti sig af í klaustri í Kósovó, nærri landamærunum að Serbíu, í dag. Umsátursástand myndaðist og kom til fjölda skotbardaga milli mannanna og kósovósks lögregluliðs. 

Skotbardaginn hefur skotið íbúum Kósóvó, sem flestir eru af albönsku bergi brotnir, skelk í bringu hvað varðar stöðugleika og sjálfstæði þeirra gagnvart Serbum. Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 eftir uppreisn skæruliða og inngrip NATÓ árið 1999.

Í yfirlýsingu frá kósóvóskum yfirvöldum er krafist þess að serbneski herinn hörfi frá landamærunum án tafar. 

„Viðvera hersins á landamærunum er næsta skref Serbíu til að ógna sjálfstæði lands okkar,“ segir í yfirlýsingunni.

Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, sagði í samtali við Financial Times að hann hefði ekki í hyggju ða senda herlið yfir landamærin til Kósóvó. Slíkar vendingar myndu hafa slæm áhrif á fyrirætlanir stjórnvalda um að ganga í Evrópusambandið.

Kósóvósk stjórnvöld segjast staðfastari en nokkru sinni fyrr í því að vernda land sitt.

„Stjórnvöld í Kósóvó hafa verið í stöðugu sambandi við Bandaríkin og ríki Evrópusambandsins varðandi þessa alvarlegu ógn sem stafar af Serbum.“

Atlantshafsbandalagið, sem er enn með viðveru um 4500 hermanna í Kósóvó, sagði í yfirlýsingu á föstudag að búið væri að bæta við frekara herliði til að vera við öllu viðbúið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×