Körfubolti

Aftur vekur Butler at­hygli fyrir út­lit sitt á fjöl­miðla­degi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jimmy Butler heldur áfram að koma á óvart.
Jimmy Butler heldur áfram að koma á óvart. Sam Navarro/Getty Images

Jimmy Butler, leikmaður Miami Heat, fer óhefðbundnar leiðir þegar kemur að hárgreiðslum og útliti á fjölmiðladegi NBA-deildarinnar.

Upphaf hvers NBA-tímabils hefst með hinum svokallaða „fjölmiðladegi.“ Þar mæta leikmenn og þjálfarar, svara stöðluðum spurningum með stöðluðum svörum og fara svo heim. Hinn 34 ára gamli Jimmy Butler vill hins vegar meira krydd í líf sitt og hefur því tekið upp á því að mæta til leiks nærri óþekkjanlegur.

Í fyrra mætti hann til baka með þungar fléttur betur þekktar sem dreadlocks. Hann sagðist einfaldlega vera að þessu til að gera fólk á veraldarvefnum brjálað. Þá lofaði hann einnig að hárið yrði eðlilegra þegar deildin færi af stað.

Hárið var öllu styttra í þetta skiptið, hvort hann hafi ekki nennt að safna eða fara í hárlengingar er ekki vitað, en hann lagði þó mikla vinnu í útlitið á fjölmiðladeginum.

Það var ekki aðeins boðið upp á slétt hár heldur var Butler með þrjá hringi í neðri vörinni, hring í nefinu og pinna við augabrúnina. Hvort hringirnir eru alvöru er heldur ekki vitað.

„Ég er mjög tilfinningaríkur þessa stundina. Þetta er emo-hliðarsjálfið mitt og mér líkar vel við það, þetta er ég. Þetta lýsir tilfinningum mínum undanfarið,“ sagði Butler aðspurður út í útlit sitt. Hvort hann sé að vísa í að stórskyttan Damian Lillard hafi ákveðið að ganga í raðir Milwaukee Bucks þegar hann virtist aðeins vilja ganga í raðir Miami Heat er einnig óvitað en ætla má að Butler sé að senda einhverskonar skilaboð.

Miami Heat endaði í 7. sæti Austurdeildar á síðustu leiktíð og fór því í umspil. Liðið komst inn í gegnum umspilið og fór á endanum alla leið í úrslit þar sem það tapaði 1-4 gegn Denver Nuggets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×