Raquel Laneiro átti stórleik í liði Fjölnis er liðið vann sinn fyrsta sigur í Subway deild kvenna í kvöld gegn nýliðum Þórs.
Fjölnir tapaði sínum fyrsta leik í deildinni gegn Grindavík á meðan Þór vann sinn fyrsta leik gegn Stjörnunni.
Það var Fjölnir sem byrjaði leikinn mun betur og var staðan orðin 14-3 eftir aðeins þrjár mínútur en þá voru þjálfarar Þórs búnir að sjá nóg og tóku leikhlé. Eftir það leikhlé tóku gestirnir við sér og minnkuðu muninn í eitt stig og þá var það komið að Fjölni að taka leikhlé. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-15.
Allur fyrri hálfleikurinn var heldur sveiflukenndur og skiptust liðin á að vera með frumkvæðið en Fjölnir ríghélt alltaf í forystuna sama hvað gerðist og var staðan í hálfleik 34-32. Raquel Laneiro öflugust hjá Fjölni og Lore Devos hjá Þór.
Gestirnir í Þór mættu tvíelfdir til leiks í seinni hálfleikinn og settu tóninn strax með fyrstu sókninni þegar Hrefna Hlín Björnsdóttir setti niður þriggja stiga skot og náði forystunni fyrir gestina í fyrsta sinn í leiknum. Gestirnir héldu forystunni út allan þriðja leikhluta en bæði lið spiluðu virkilega vel og var vel tekist á. Staðan 49-50 og síðasti leikhlutinn eftir.
Í síðasta leikhlutanum var öll orka búin í gestunum og Laneiro einfaldlega gekk á lagið. Hún skoraði hvert þriggja stiga skotið á fæður öðru og endaði leikinn með 36 stig, meira en helming af stigum liðsins. Lokatölur 70-62 og fyrsti sigur Fjölnis í deildinni staðreynd.
Afhverju vann Fjölnir?
Þetta var virkilega sveiflukenndur leikur en undir lokin var það Fjölnir sem hafði meiri orku með Laneiro í broddi fylkingar.
Hverjir stóðu uppúr?
Það fer ekkert á milli mála að Raquel Laneiro var best á vellinum. Hún stýrði spilinu og skoraði 36 stig fyrir Fjölni. Hrefna Hlín var einnig frábær í liði gestanna sem og Devos.
Hvað fór illa?
Orkan var einfaldlega búin í gestunum í fjórða leikhluta og leikmenn liðsins gátu ekki haldið í við leikmenn eins og Laneiro.
Hvað gerist næst?
Næsti leikur Fjölnis er á laugardaginn gegn Stjörnunni á meðan næsti leikur Þórs er gegn Snæfelli á sunnudaginn.
Daníel Andri Halldórsson: Skotnýtingin var ótrúlega léleg
„Ég er ánægður með spilamennskuna en það var skotnýtingin sem varð okkur að falli í leiknum,“ byrjaði Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, að segja eftir leik.
„Skotnýtingin var alveg ótrúlega léleg og síðan vorum við með alltof marga tapaða bolta. En þetta er eitthvað sem við getum lagað á æfingum,“ hélt Daníel áfram að segja.
Daníel talaði aðeins um þriðja leikhluta þar sem liðið hans spilaði hvað best.
„Ég held að þá hafi augnablikið verið með okkur og stemningin líka og við hættum ekki allan leikhlutann sem kostaði sitt í síðasta leikhlutanum. Í síðasta leikhlutanum steig síðan Laneiro upp hjá þeim og gekk algjörlega frá okkur,“ endaði Daníel Andri að segja.
Hallgrímur Brynjólfsson: Náðum að loka teignum
„Þetta var mjög opinn leikur og hann fór fram og til baka,“ byrjaði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Fjölnis, að segja eftir leik.
„Við gerum mjög vel hérna á lokakaflanum og spiluðum geggjaða vörn og það var það sem skilaði þessu og ég er mjög stoltur af liðinu mínu,“ hélt Hallgrímur áfram að segja.
Hallgrímur talaði um mikilvægi þess að ná að loka teignum í fjórða leikhluta.
„Mér fannst við ná að loka teignum í fjórða leikhluta og náðum líka að loka á Hrefnu Hlín og Lore og það var mjög mikilvægt.“
Raquel Laneiro átti frábæran leik í liði Fjölnis.
„Hún er gjörsamlega frábær og hún gerði virkilega vel í dag. Margt sem hún getur bætt og við sem lið og við munum vinna í því fyrir leikinn gegn Stjörnunni,“ endaði Hallgrímur á að segja.